Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 19. desember 2022 09:45
Elvar Geir Magnússon
Pólski dómarinn fær mikið lof - „Besta ákvörðun mótsins“
Szymon Marciniak.
Szymon Marciniak.
Mynd: EPA
Pólski dómarinn Szymon Marciniak fær mikið lof fyrir frammistöðu sína í úrslitaleik Argentínu og Frakklands á HM í gær. Hann þótti hafa afskaplega góð tök á leiknum, negldi stóru ákvarðanirnar og átti sinn þátt í að leikurinn var eins skemmtilegur og raun ber vitni.

Mike Dean, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, var á leiknum í gær og segir að frammistaða Marciniak undir mikilli pressu hafi verið aðdáunarverð.

Dean segir að allir þrír vítadómarnir yfir 120 mínútur leiksins hafi verið hárréttir. Þá hrósar hann Marciniak sérstaklega fyrir að hafa spjaldað Marcus Thuram, leikmann Frakklands, fyrir leikaraskap.

„Þvílík ákvörðun. Besta ákvörðun dómara á mótinu. Marciniak var búinn að staðsetja sig frábærlega og sá hvernig Enzo Fernandez hafði dregið sig til baka. Marciniak spjaldaði Frakkann réttilega," segir Dean.

Marciniak er 41 árs og má telja ansi líklegt að á komandi ári muni hann dæma úrslitaleik Meistaradeildarinnar, eftir frammistöðu hans í gær.
Athugasemdir
banner
banner
banner