mán 19. desember 2022 16:00
Elvar Geir Magnússon
Sacchi táraðist þegar bikarinn fór á loft: Grét fyrir Messi
Mynd: EPA
Hinn goðsagnakenndi ítalski þjálfari Arrigo Sacchi segist hafa grátið af gleði þegar Lionel Messi lyfti heimsmeistarabikarnum í gær.

„Þegar Messi lyfti bikarnum til himins þá blotnuðu augu mín. Ég hugsaði um vegferðina, sigrana sem hann hefur unnið með Barcelona, hæfileikana, Ballon'dOr verðlaunin. Hann hafði ekki unnið stærstu verðlaun sem hægt er að vinna með þjóð sinni," segir Sacchi.

„Það var tilfinningarík stund að sjá hann lyfta bikarnum. Lífið er örlátt og fótboltinn líka. Hann gefur oft til baka það sem þú hefur unnið fyrir. Messi fékk von, hann svitnaði og lagði mikið á sig. Þessi heimsmeistaratitill er verðlaun fyrir allan feril hans."

Úrslitaleikurinn var stórbrotin skemmtun. Messi skoraði tvö mörk og einnig úr spyrnu sinni í vítakeppninni.

„Þetta var hágæða skemmtun sem hélt milljörðum fólks fyrir framan sjónvarpsskjáinn. Þetta var sigur fótboltans," segir Sacchi.

Hann stýrði ítalska landsliðinu í úrslitaleik HM 1994 en þar tapaði liðið í vítakeppni gegn Brasilíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner