Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 20. janúar 2019 10:50
Elvar Geir Magnússon
„Enska úrvalsdeildin betri staður án Mourinho"
Öllu öðru um að kenna en honum sjálfum
Jose Mourinho var rekinn frá Manchester United.
Jose Mourinho var rekinn frá Manchester United.
Mynd: Getty Images
Verðlaunablaðamaðurinn Daniel Taylor hjá Guardian gagnrýnir Jose Mourinho fyrir að geta ekki játað mistök. Mourinho var í viðtali í Katar þar sem hann kenndi öllu öðru um að hlutirnir gengu ekki upp hjá Manchester United.

Taylor segist hafa hugsað út í það hvort Mourinho myndi sýna á sér mannlega hlið eftir stjóratíð sína á Old Trafford og læra af þeim mistökum sem hann gerði þar. Þær pælingar hafi svo reynst vera langt frá sannleikanum.

„Það var kjánalegt af mér að hugsa út í þetta. Að halda að við myndum sjá mýkri hlið af Mourinho, að hann myndi sýna einhverja auðmýkt eftir þessa reynslu," segir Taylor.

„Maður beið bara eftir því að hann myndi segja í viðtalinu að hálfleiks-appelsínurnar á Old Trafford væru of súrar eða koddarnir á svítunni hans á Lowry hótelinu ekki nægilega mjúkir. Af öllu því sem hann sagði var ekki ein setning sem gaf til kynna að hann hefði getað gert betur að einhverju leyti."

„Það var engin eftirsjá. Ekkert sem gaf til kynna að hann gerði sér grein fyrir því sem er núna að gerast hjá United sem hefur unnið sjö leiki í röð. Ekkert sem útskýrir af hverju sömu leikmenn sem eru að spila frábærlega núna virtust svo óánægðir og takmarkaðir undir hans stjórn. Af hverju það er skyndilega ekki skýjað yfir Old Trafford."

Taylor segir að Mourinho búi klárlega ekki yfir þeim kosti að geta játað eigin mistök.

„Þetta var öllu öðru að kenna: Leikmönnum, strúktúrnum, skorti á íþróttastjóra (þrátt fyrir þá staðreynd að hann vildi ekki hafa neinn yfir sér hjá Real Madrid). Ofan á það minnir hann á hvað hann er magnaður, á kostnað þeirra sem hann lítur niður til," segir Taylor.

„Það var líklega barnalegt af mér að búast við einhverju öðru. Mourinho á troðfullan bikaraskáp en þörf hans á að minna á það er ótrúleg. Það er leiðinlegt að Mourinho hafi ekki skilning á því að fólk eigi að læra mest um sjálft sig þegar það mistekst. Vera hans hjá United sýnir að jafnvel þeir bestu geta gert mistök og sannar að hann er ekki alveg sami snillingurinn og hann segist vera."

„Hann mun brátt snúa aftur, mögulega hjá Real Madrid, þrjóskari en nokkru sinni fyrr og heldur áfram að neita að beygja sig fyrir nokkurn mann. Og það furðulegasta við allt saman: Enska úrvalsdeildin er betri staður án hans."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner