Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   sun 20. janúar 2019 18:53
Ívan Guðjón Baldursson
Ranieri: Reynsluleysið varð okkur að falli
Mynd: Getty Images
Gengi Claudio Ranieri við stjórnvölinn hjá Fulham hefur einkennst af svekkjandi tapleikjum og óheppni en ítalski þjálfarinn hefur trú á að félagið geti bjargað sér frá falli.

Fulham mætti Tottenham í Lundúnaslag í dag og var óheppið að vera aðeins 1-0 yfir eftir frábæran fyrri hálfleik. Leikurinn breyttist í síðari hálfleik og náðu gestirnir að pota inn sigurmarki á lokasekúndu leiksins.

„Við vorum frábærir í fyrri hálfleik. Við skoruðum og áttum að fá vítaspyrnu en dómarinn dæmdi ekki. Í seinni hálfleik gerðu strákarnir sitt besta en reynsluleysið varð okkur að falli," sagði Ranieri að leikslokum.

„Það var ein mínúta eftir og við fengum aukaspyrnu. Af hverju settum við boltann inn í teig? Víð áttum að spila stutt og fara með boltann að hornfánanum.

„Við spiluðum vel og ég held að stuðningsmenn séu ánægðir með frammistöðuna. Ég hef mikla trú á þessum hóp, ef við höldum áfram að spila svona vel þá getum við bjargað okkur."


Ryan Babel, sem var leikmaður Liverpool á síðasta áratugi, skrifaði undir lánssamning við Fulham og fór beint inn í byrjunarliðið. Ranieri var ánægður með hans framlag og vonast til að fá fleiri menn inn í janúar.

„Ryan Babel átti stórkostlegan fyrri hálfleik en hann er nýkominn úr fríi. Ég hugsa að hann geti spilað heilar 90 mínútur eftir mánuð eða svo. Ég er ánægður að hafa fengið hann til félagsins og vona að fleiri fylgi fyrir gluggalok."

Fulham er í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 14 stig eftir 23 umferðir. Það eru sjö stig í næsta lið í öruggu sæti.
Athugasemdir
banner
banner