Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 20. janúar 2019 21:15
Hulda Mýrdal
Sætasti titillinn vegna erfiðleika innan og utan vallar
Adda lyftir Íslandsmeistarabikarnum 2016 ásamt Hörpu Þorsteinsdóttur
Adda lyftir Íslandsmeistarabikarnum 2016 ásamt Hörpu Þorsteinsdóttur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adda í dramatískum jafnteflisleik við Breiðablik sumarið 2016
Adda í dramatískum jafnteflisleik við Breiðablik sumarið 2016
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Þar fer hún yfir ferilinn í ítarlegu spjalli.

Tímabilið 2016 er Öddu ofarlega í huga. Þá varð Stjarnan Íslandsmeistari í fjórða skipti en það gekk ekki áfallalaust fyrir sig.

„Þetta var sætasti titillinn af því að við vorum að keppa við mjög gott lið Blika. Þór/KA og Valur voru líka með góð lið. Þetta var erfitt mót. Hvert áfallið á fætur öðru dundi yfir," sagði Adda sem var fyrirliði Stjörnunnar á þessum tíma.

Leikmenn kvarnast úr hópnum
Það gekk ýmislegt á í Garðabænum þetta sumarið og mikið var um meiðsli.

„Við vorum ótrúlega hungraðar eftir að hafa tapað titlinum 2015. Ég hef aldrei verið eins hungruð í titil eins og þarna. Þetta var svakalegt tímabil og ég held að það átti sig enginn á því hversu mikið afrek þetta er vegna þess á tímabilinu missum við út hvern leikmanninn á fætur öðrum í meiðsli eða barneignir. Harpa verður ólétt þarna."

„Við missum Hörpu, Sigrún Ella slítur krossbönd, Donna Key spilar 10 leiki, Lára Kristín spilar 8-10 leiki og var í mjaðmameiðslum," sagði Adda en í staðinn stigu ungir leikmenn upp.

„María Eva og Agla María koma inn. Það vissi enginn hverjir þessir leikmenn voru en þær komu inn þegar mesta pressan var. Katrín spilar líka handleggsbrotin."

Meiðsli og fjarvera leikmanna hafði auðvitað áhrif á æfingar liðsins sem voru oftar en ekki fámennar. „Stundum var Óli með sex leikmenn á æfingum, við spiluðum bara leikina."

Áföll utan vallar hjá Öddu
Það gekk mikið á innan fótboltavallarins þetta sumarið en Adda gekk einnig í gegnum erfiðleika utan vallar í sínu einkalífi.

„Þetta var mjög erfitt tímabil fyrir mig andlega. Ég gekk í gegnum hæðir og lægðir. Á þessu eina sumri missi ég fóstur tvisvar. Þetta gerðist fyrir leik á móti Selfossi í fyrri umferð og svo aftur fyrir leik á móti Selfossi í seinni umferð. Þá fæ ég það áfall."

„Fótboltinn hélt mér gangandi og hann var það eina sem ég hugsaði um. Mér fannst ég bera ábyrgð á liðinu, ég vissi að Harpa var ólétt og var að fara detta út. Það var ekkert í boði fyrir mig að detta út eða hugsa um hvað ég væri að ganga í gegnum. Ég þurfti bara að performa."

„Þetta var ótrúlega erfitt en á sama tíma eitt af lærdómsríkari köflum í mínu lífi. Ég er mjög stolt af þessu tímabil.,"
sagði Adda sem sagði ekki frá missinum sem hún var að upplifa heldur einbeitti sér að boltanum og að halda liðsfélögunum við efnið.

Spennufall eftir tímabilið
„Ég krassaði eftir tímabilið. Ég áttaði mig ekki á því hvað ég hafði gengið í gegnum. Ekki það að það eru fullt af konum sem ganga í gegnum þetta og þegar þetta kom fyrir mig áttaði ég mig á því hvað margar ganga í gegnum þetta. Þetta var mjög erfitt en ótrúlega lærdómsríkt ferli. Maður lærir inn á sjálfan sig," sagði Adda áður en hún lýsti því hvernig Stjörnuliðið þjappaði sér saman í mótlætinu og gaf allt í sölurnar til að vinna mótið.

„Hversu langt geturu farið bara á hugarfarinu að þú ætlir að ná í þennan titil? Ég var orðin smá svona manísk að ná í þennan titil og við vorum allar á þessum stað. Þetta var ekki bara ég sem var að fórna eða gera, við vorum allar tilbúnar að fara í þessa átt. Vorum með fullt af stelpum sem höfðu ekki unnið neitt."

„Það var þessi kemistría, þetta var svona það sem við höfum byggt upp í Stjörnunni. Það hefur alltaf verið rosalega samkennd innan hópsins. Við treystum hvorri annarri og þetta tímabil endurspeglar alla þessa sigurgöngu sem við höfum gengið í gegnum."


Skrifað í skýin á Samsung vellinum
„Það var líka eitthvað með okkur þetta sumarið," sagði Adda en baráttan um Íslandsmeistaratitilinn var afar hörð og heilladísirnar voru með Stjörnukonum þegar þær mættu helstu keppinautum sínum í Breiðablik í 16. umferð.

„Breiðabliksleikurinn sem fór 1-1. Þá hugsaði ég að það væri eitthvað með okkur. Breiðablik skorar löglegt mark sem er tekið af þeim og hefði komið þeim í 2-0. Svo fá þær rautt spjald sem er kannski appelsínugult spjald. Þessir hlutir sem falla með okkur. Þú vinnur þér alltaf inn ákveðna lukku," sagði Adda en með úrslitunum náði Stjarnan að halda forystu sinni í efsta sæti deildarinnar.

Gat ekki gengið í gegnum þetta án þess að vinna
„Ég set mjög mikla pressu á sjálfa mig, en ég set líka pressu á liðsfélagana. Ég held að ég hafi náð svona langt út af því að ég set þessa pressu á mig og aðra. Ég reyni að taka aðra með mér í þetta. Þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur geri ég 110%."

„Ég var manísk á þessum tíma. Stjarnan skildi taka þennan titil út af því að mér fannst ég skulda sjálfri mér það að ég ætlaði ekki að ganga í gegnum þennan erfiða kafla í mínu lífi án þess að hann myndi skila mér og stelpunum einhverju."


Smelltu hér til að hlusta á Öddu á Heimavellinum

Heimavöllurinn er einnig á Instagram þar sem knattspyrna kvenna er í forgrunni. Þar eru knattspyrnu kvenna gerð skil á lifandi og fjölbreyttan hátt. Þangað rata helstu fréttir, leikmaður vikunnar er valinn og knattspyrnukonur svara hraðaspurningum svo eitthvað sé nefnt.
Athugasemdir
banner
banner
banner