Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 20. apríl 2019 14:37
Ívan Guðjón Baldursson
Foden hissa að vera í byrjunarliðinu
Phil Foden fagnar eina marki leiksins í 1-0 sigri.
Phil Foden fagnar eina marki leiksins í 1-0 sigri.
Mynd: Getty Images
Hinn 18 ára gamli Phil Foden byrjaði óvænt í 1-0 sigri Manchester City gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn var gífurlega mikilvægur fyrir bæði lið þar sem Man City þurfti sigur í titilbaráttunni og Tottenham er í harðri fjögurra liða Meistaradeildarbaráttu.

„Agüero gerði frábærlega að skalla boltann til mín. Sem betur fer var ég á réttum stað og skallaði inn. Ég er ekki alveg búinn að átta mig á þessu en á þessari stundu er ég bara ánægður með að hafa hjálpað liðinu að sigra," sagði hinn ungi Foden að leikslokum.

„Ég er sóknarsinnaður miðjumaður og reyni að vera eins mikið inni í teig og ég get. Það skilaði sér í dag. Ég er heppinn að eiga svona góða liðsfélaga, ég lít upp til þeirra allra og reyni að læra af þeim."

Foden var himinlifandi í viðtölum eftir leik, sérstaklega því hann bjóst ekki við að byrja svona mikilvægan leik á viðkvæmum tímapunkti. Bernardo Silva var valinn maður leiksins og gaf hann Foden verðlaunin sín.

„Þetta er mitt fyrsta úrvalsdeildarmark, ég mun aldrei gleyma því. Ég var smá hissa að vera í byrjunarliðinu en ég er alltaf tilbúinn til að spila. Við erum með titilinn í okkar höndum, ef við vinnum alla leikina sem eru eftir þá verðum við meistarar."
Athugasemdir
banner
banner
banner