banner
   lau 20. apríl 2019 14:20
Ívan Guðjón Baldursson
Willum byrjaði í sigurleik BATE - Rostov tapaði
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Slavia Mozyr 1 - 2 BATE Borisov

Willum Þór Willumsson fékk að spila í fyrsta sinn með byrjunarliði BATE Borisov í efstu deild í Hvíta-Rússlandi.

BATE heimsótti þar Slavia Mozyr og komust heimamenn í Mozyr yfir með marki úr vítaspyrnu snemma leiks.

Gestirnir í BATE sóttu í leit að jöfnunarmarki sem kom þó ekki fyrr en á 55. mínútu. Maksim Skavysh var skipt inn eftir markið og skoraði hann það sem reyndist vera sigurmark BATE þremur mínútum síðar.

Þetta var fjórði leikur tímabilsins í Hvíta-Rússlandi og er BATE með níu stig.

Orenburg 3 - 0 FK Rostov

Ragnar Sigurðsson bar fyrirliðabandið er FK Rostov heimsótti Orenburg í efstu deild í Rússlandi. Björn Bergmann Sigurðarson byrjaði í fremstu víglínu.

Það gekk þó lítið upp hjá Íslendingaliðinu þrátt fyrir jafnan leik. Staðan var markalaus undir lok fyrri hálfleiks þegar Norðmaðurnin ungi Mathias Normann setti knöttinn óvart í eigið net.

Heimamenn bættu tveimur mörkum við í síðari hálfleik og unnu að lokum 3-0. Orenburg jafnaði Rostov á stigum með sigrinum og eru liðin aðeins einu stigi frá Evrópudeildarsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner