fim 20. júní 2019 02:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Copa America: Messi skoraði en Argentína vann ekki
Lionel Messi.
Lionel Messi.
Mynd: Getty Images
Duvan Zapata og James Rodriguez.
Duvan Zapata og James Rodriguez.
Mynd: Getty Images
Lionel Messi skoraði af vítapunktinum þegar Argentína gerði 1-1 jafntefli við Paragvæ í Suður-Ameríku bikarnum, Copa America, í leik sem var að klárast.

Argentína byrjaði keppnina á tapi gegn Kólumbíu og þurfti því að fá eitthvað út úr þessum leik. Paragvæ komst yfir á 37. mínútu þegar Richard Sanchez skoraði eftir undirbúning frá Miguel Almiron.

Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Paragvæ. Snemma í seinni hálfleiknum fékk Argentína vítaspyrnu og auðvitað fór Messi á punktinn. Hann skoraði og jafnaði.

Stuttu síðar fékk Paragvæ vítaspyrnu eftir að Nicolas Otamendi braut af sér innan teigs. Armani í marki Argentínu gerði sér þá lítið fyrir og varði spyrnuna.

Eftir frekar bragðdaufan fyrri hálfleik var seinni hálfleikurinn aðeins skemmtilegri. Það var hins vegar ekki boðið upp á fleiri mörk og lokatölur því 1-1.

Fyrir lokaumferðina í riðlinum er Argentína með jafnmörg stig og Katar, eitt stig. Paragvæ er með tvö stig og Kólumbía er með sex stig og komið áfram. Fyrir leik Argentínu og Paragvæ, þá vann Kólumbía dramatískan 1-0 sigur á Katar. Duvan Zapata skoraði eftir sendingu James Rodriguez þegar lítið var eftir.

Argentína mætir Katar í lokaumferð riðilsins. Það eru þrír riðlar og komast tvö efstu liðin úr öllum riðlum áfram ásamt tveimur liðum í þriðja sæti. Möguleikar Argentínu eru því nokkuð góðir fyrir lokaumferð riðilsins þrátt að vera aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina.

Kólumbía 1 - 0 Katar
1-0 Duvan Zapata ('86)

Argentína 1 - 1 Paragvæ
0-1 Richard Sánchez ('37)
1-1 Lionel Messi ('57, víti)
1-1 Derliz Gonzalez ('63, misnotuð vítaspyrna)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner