Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fim 20. júní 2019 16:00
Arnar Daði Arnarsson
Jói Kalli: Fókusinn fyrst og fremst á okkur sjálfa
Jóhannes Karl.
Jóhannes Karl.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA tekur á móti sínu gamla félagi, HK á Akranesvellinum á laugardaginn í 10. umferð Pepsi Max-deildarinnar sem er samt sem áður níundi leikur liðanna.

Jóhannes Karl hóf meistaraflokksþjálfaraferil sinn hjá HK en tók við ÍA fyrir síðasta tímabil í Inkasso-deildinni. Bæði lið unnu sér síðan þátttökurétt í Pepsi Max-deildinni eftir frábært tímabil í Inkasso-deildinni síðasta sumar.

„Ég átti fínan tíma með HK-ingunum og fékk mitt tækifæri sem þjálfari þar. Það eru töluverðar mannabreytingar á liðinu frá því ég var þarna en það er samt sem áður ennþá leikmenn í liðinu sem ég var með. Brynjar Björn hefur síðan komið inn sem nýr þjálfari og komið með sínar áherslur. Þetta er töluvert breytt lið frá því ég var þarna," sagði Jóhannes Karl sem segir það ánægjulegt að HK sé komið í deild þeirra bestu.

„Það er frábært fyrir HK að vera komið í efstu deild og þeir áttu það fyllilega skilið eftir tímabilið í fyrra. Það er skemmtilegt fyrir alla sem eru að starfa fyrir HK og HK-inga að vera í efstu deild."

Eftir frábæra byrjun á tímabilinu hefur ÍA nú tapað þremur leikjum í röð. Tveimur í Pepsi Max-deildinni og einum í Mjólkurbikarnum. Jóhannes Karl segist ekki hafa breytt neinu á síðustu æfingum liðsins þrátt fyrir þrjú töp í röð.

„Við erum fyrst og fremst með fókusinn á okkur sjálfa. Við erum að vinna í okkar hlutum og það er það sem skiptir okkur langmestu máli er að halda áfram að vinna í okkur sjálfum og bæta það sem við erum að gera. Það er verkefni sem við erum áfram að vinna í, alveg sama hvernig úrslitin eru. Við verðum að halda áfram að vinna í því að bæta okkur í öllu. Ef við ætlum að ná okkar markmiðum þá veðrum við að halda áfram að bæta okkur bæði varnarlega, sóknarlega og öllu öðru. Við erum ekkert alltaf að horfa í það sem er búið. Við erum að horfa fram á veginn."

Skagamenn töpuðu illa gegn KR í síðustu umferð á heimavelli, 3-1 eftir að hafa lenti 3-0 undir.

„Það var ömurlegt að tapa. Við réttum KR-ingunum þetta svolítið. Auðvitað eru KR með frábært lið og refsuðu okkur. Við hefðum getað gert töluvert betur, það er alltaf leiðinlegt að tapa sama hvar það er. Sá leikur er búinn og fókusinn hjá okkur er núna á næsta verkefni, leikinn gegn HK," sagði Jóhannes Karl að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner