mán 20. júní 2022 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Erfitt að fara í frí með tap á bakinu - „Þá er ég hvergi banginn"
Gunnar Magnús Jónsson
Gunnar Magnús Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík tapaði fyrir KR, 3-1, í síðustu umferð Bestu deildar kvenna fyrir langt hlé en Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, segir það ansi erfitt að fara í frí með tap á bakinu.

Tímabilið hjá Keflvíkingum hefur verið nokkuð kaflaskipt til þessa en liðið byrjaði gríðarlega vel og vann KR 4-0 í fyrstu umferðinni en staðan var önnur í gær.

KR-liðið var svolítið lengi að finna taktinn í deildinni en hefur náð ótrúlegum framförum í síðustu leikjum og var þetta allt annar leikur gegn Keflavík í gær.

Gunnar vonast til að liðið safni saman kröftum í hléinu og spili síðari hlutann af alvöru en liðið situr nú í 7. sæti með 10 stig. Næsti leikur liðsins er ekki fyrr en 4. ágúst vegna Evrópumóts landsliða sem hefst í næsta mánuði.

„Það er alltaf mjög slæmt að fara inn í frí með tap á bakinu og tala nú ekki um svona langt frí. Nú er þetta orðinn pakki í neðri hlutanum því við hefðum komið okkur í mjög stöðu með sigri og jafnvel jafntefli í gær en það er sárt og erfitt að fara í fríið með tap á bakinu."

„Við eigum Breiðablik og Val og það er sérstakt að við séum alltaf tilbúnar í svoleiðis leiki. Þetta er langt í það og ekki tímabært að ræða eitthvað, en við munum skoða okkar hóp og leikmannamál hvort við þurfum að bæta við okkur. Síðan 4. ágúst verðum við klárar í seinni hlutann af mótinu."

„Við erum ekki í fallsæti eins og er og með þrjú lið fyrir neðan okkur og við þurfum að koma klárar í þennan seinni hluta og spila hann eins og alvöru lið og þá er ég hvergi banginn,"
sagði Gunnar Magnús við Fótbolta.net í gær.
Gunnar Magnús: Örvæntingarskot á móti sterkum vindinum
Athugasemdir
banner
banner
banner