mán 20. júlí 2020 20:49
Brynjar Ingi Erluson
Ancelotti: Aukaspyrnan mjög góð og afgreiðslan frábær
Carlo Ancelotti
Carlo Ancelotti
Mynd: Getty Images
Carlo Ancelotti, stjóri Everton, var ánægður með uppskeruna á Bramall Lane í dag en lið hans vann Sheffield United 1-0.

Ancelotti ákvað að setja Gylfa Þór Sigurðsson í tíuna og þá fékk hinn 18 ára gamli miðvörður Jarrad Branthwaite tækifærið og nýtti það.

„Andinn var mjög góður. Þetta kom mér ekki á óvart og leikmennirnir vita vel hvað stuðningsmenn vilja sjá á vellinum. Þeir vilja frábæran anda og baráttu og við sýndum það í dag," sagði Ancelotti.

„Við fengum tækifærin í skyndisóknunum. Ég er mjög ánægður með frammistöðuna í heild sinni. Við erum að klára tímabilið og andinn sem við erum með er góðs viti fyrir framtíðina."

„Við höfum spilað ágætlega frá því í desember. Okkur hefur vantað smá hvatningu í síðustu leikjum en það er mikilvægt að klára tímabilið vel. Því var sigurinn í dag mikilvægur."


Ítalski stjórinn var ánægður með sigurmarkið sem var útfært af þeim Gylfa Þór Sigurðssyni og Richarlison.

„Þetta var ofurmark. Richarlison gerði vel með að skalla boltann og aukaspyrnan var mjög góð en afgreiðslan var hreint út sagt frábær."

Eins og áður kom fram spilaði Jarrad Branthwaite sinn fyrsta leik í byrjunarliði Everton. Hann er 18 ára gamall og var einn besti maður vallarins.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá kom þetta mér svolítið á óvart því hann er 18 ára gamall og á þessum aldri er eðlilegt að gera mistök en hann missti aldrei stjórnina. Hann var sterkur og rólegur," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner