mán 20. júlí 2020 22:54
Brynjar Ingi Erluson
Guardiola um Arsenal: Ber virðingu fyrir fótboltanum en ekki félaginu
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City á Englandi, ber mikla virðingu fyrir fótboltanum sem Arsenal spilar en segist þó ekki bera mikla virðingu fyrir störfum þeirra utan vallar.

Mikel Arteta, fyrrum samstarfsfélagi Guardiola hjá Man City, er stjóri Arsenal en honum tókst að hafa betur er lið þeirra mættust í undanúrslitum FA-bikarsins á dögunum.

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði bæði mörk Arsenal og þar við sat.

„Við spiluðum ekki fyrri hálfleikinn gegn Arsenal eins og við gerðum í þeim síðari. Það var eina eftirsjáin því vildum að frammistaðan yfir 90 mínútur hefði verið sú sama og í seinni hálfleiknum," sagði Guardiola.

Það er talið að Arsenal hafi verið leiðandi í hópi úrvalsdeildarfélaga sem sendi CAS (alþjóða íþróttadómstólnum í Sviss) sérstakt bréf þar sem var krafist þess að hafna beiðni Manchester City um að fresta banni í Meistaradeild Evrópu og vöktu því ummæli Guardiola sérstaka athygli.

City fær að spila í Meistaradeildinni en félagið þurfti þó að greiða rúmar 8 milljónir punda í sekt til UEFA.

„Eftir að við töpuðum þá tókumst við í hendur. Andstæðingar mínir eiga alltaf skilið virðingu mína og hrós. Ég ber ómælda virðingu fyrir því sem Arsenal er að gera á vellinum en ber þó litla virðingu fyrir því sem þeir gera utan vallar. Ég vil óska þeim góðs gengis í úrslitaleiknum," sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner