Spænska félagið Real Madrid hefur sett sig í samband við Liverpool til að vita hvort það sé reiðubúið að selja franska varnarmanninn Ibrahima Konate í þessum glugga. L'Equipe greinir frá.
Þessi 26 ára gamli Frakki er fastamaður í vörn Liverpool og spilaði stóra rullu er liðið varð Englandsmeistari á síðustu leiktíð.
Samningur hans rennur út á næsta ári og hefur Liverpool átt í viðræðum við hann um framlengingu en ekkert samkomulag er í höfn og er óttast að hann muni yfirgefa liðið á frjálsri sölu á næsta ári.
Ef hann ákveður að sitja út samninginn er Madríd talin líklegasti áfangastaður hans en spænska félagið væri helst af öllu til í að fá hann í sumar.
L'Equipe segir að Madrídingar hafi sett sig í samband við Liverpool til að athuga hvort það sé einhver möguleiki á að kaupa hann.
Það er talið heldur ólíklegt að Liverpool vilji selja hann og þá sérstaklega þegar það er í miðjum samningaviðræðum við leikmanninn og umboðsmenn hans.
Athugasemdir