Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá því að markvörðurinn James Trafford sé búinn að samþykkja samningstilboð frá Manchester City.
Trafford líður þó vel hjá Burnley og ætlar ekki að fara fram á sölu frá félaginu. Hann er tilbúinn til að skipta um félag ef Burnley og Man City komast að samkomulagi um kaupverð.
Trafford þekkir vel til í Manchester enda er hann uppalinn hjá Man City frá 13 ára aldri. Hann ólst upp hjá félaginu en fékk aldrei tækifæri með aðalliðinu þrátt fyrir að vera aðalmarkvörður U21 landsliðs Englands og gríðarlega eftirsóttur.
Hann var að lokum seldur til Burnley fyrir tveimur árum, fyrir tæplega 20 milljónir punda, og er Man City með endurkaupsákvæði. Það ákvæði hljóðar upp á 40 milljónir og er félagið að reyna að semja um að kaupa markvörðinn til baka fyrir lægri upphæð.
Trafford yrði keyptur til að taka við keflinu af Ederson sem er eftirsóttur af Galatasaray og félögum í Sádi-Arabíu.
22 ára Trafford á ennþá tvö ár eftir af samningi sínum við Burnley þar sem hann hefur verið aðalmarkvörður frá komu sinni.
Athugasemdir