Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 20. ágúst 2018 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Lazio ultras segja kvenmönnum að halda sig fjarri
Mynd: Getty Images
Hörðustu stuðningsmenn Lazio, sem eru partur af Lazio ultras hópnum, eru þekktir fyrir að ganga lengra en sambærilegir stuðningsmannahópar ítalskra knattspyrnufélaga.

Félagið er reglulega sektað vegna hegðunar þessa hóps stuðningsmanna sem er þekktur fyrir að reyna að móðga andstæðinga sína með kynþáttafordómum. Þá eru söguleg tengsl félagsins við fasisma afar sterk og er Paolo Di Canio enn í guðatölu meðal stuðningsmanna.

Í fyrra dreifði stuðningsmannahópurinn myndum af gyðingastúlkunni frægu Anne Frank í Roma treyju og hefur liðið oft spilað fyrir luktum dyrum í hinum ýmsu keppnum vegna fordóma stuðningsmanna.

Nú er stuðningsmannahópurinn aftur búinn að gera allt brjálað með því að dreifa blaði til allra stuðningsmanna Lazio sem mættu á fyrsta leik tímabilsins gegn Napoli um helgina.

Á blaðinu eru kvenmenn beðnir um að halda sig fjarri tíu neðstu sætaröðum í norðurstúku Ólympíuleikvangsins sem er tileinkuð hörðustu stuðningsmönnunum.

Þessi yfirlýsing frá stuðningsmannahópnum er gerð til að koma í veg fyrir að fólk sem er ekki reiðubúið til að syngja og öskra í 90 mínútur kaupi miða í norðurstúkunni.

Það sem hefur vakið furðu og reiði hjá mörgum er að hópurinn telji kvenmenn ekki hæfa til að vera ásamt háværustu körlunum í fremstu víglínu.

„Norðurstúkan er heilög fyrir okkur. Þetta er svæði með mikilvægum óskrifuðum reglum sem ber að virða. Fremstu víglínurnar hafa alltaf verið fyrir allra hörðustu stuðningsmenn, við lítum á hvern einasta heimaleik eins og stríð," stendur á blaðinu.

„Það eru engir Kvenmenn, Eiginkonur eða Unnustur í fremstu víglínu, við bjóðum þeim að staðsetja sig fyrir ofan tíundu sætaröðina.

„Þið sem veljið að koma á völlinn frekar en að eyða rómantískri kvöldstund í Borghese görðunum, vinsamlegast farið á annað svæði."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner