fim 20. október 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes: Komum boltanum ekki yfir línuna
Mynd: Getty Images

David Moyes var svekktur eftir 1-0 tap West Ham gegn Liverpool á Anfield í gærkvöldi. Hann var ánægður með frammistöðu sinna manna sem hann taldi verðskulda stig úr leiknum.


Darwin Nunez gerði eina mark leiksins í fyrri hálfleik og fengu Hamrarnir góð færi til að jafna en boltinn rataði ekki í netið.

Jarrod Bowen tókst ekki að skora af vítapunktinum undir lok fyrri hálfleiks og þá komst Tomas Soucek hársbreidd frá því að skora á lokamínútum leiksins eftir að Said Benrahma og Gianluca Scamacca höfðu einnig klúðrað góðum færum.

„Við vorum virkilega nálægt því að krækja í stig. Við áttum skilið að ná stigi og förum því heim svekktir. Við settum Liverpool undir pressu og sköpuðum færi en tókst ekki að skora. Við klúðruðum vítaspyrnu og dauðafæri. Ef við höldum áfram að spila svona þá munum við sigra fleiri leiki heldur en við töpum, það er öruggt," sagði Moyes.

„Það er enginn sem mætir á Anfield og býst við að ná í jákvæð úrslit en við komumst nálægt því. Við erum að spila flottan fótbolta og vonandi mun það skila sér í betri úrslitum í næstu leikjum."

Moyes var kominn niður á hné og búinn að setja hendurnar á höfuðið þegar Soucek klúðraði því sem virtist opið marktækifæri á 88. mínútu.

„Þaðan sem ég stóð leit þetta út fyrir að vera opið mark en Liverpool á skilið hrós fyrir þennan varnarleik. James Milner náði að setja tá í boltann og þaðan fór hann í Alisson sem náði að verja í horn. Við erum að skapa færi en við náum bara ekki að koma boltanum yfir línuna."

Sjá einnig:
Sjáðu atvikið: Alisson og Milner björguðu á lokamínútunum


Athugasemdir
banner
banner