Nú stendur yfir leit að nýjum landsliðsþjálfara karla. Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 landsliðsins, og Lars Lagerback, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, hafa mest verið orðaðir við þjálfarstöðuna hingað til.
Ari Freyr Skúlason, sem hefur spilað mikilvægt hlutverk í landsliðinu á síðustu árum, hefur talað um að hann vilji fá Lars aftur í starfið.
Hann var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær þar sem hann var spurður út í þetta.
„Hann er orðinn gamall og þegar hann hætti með okkur þá ætlaði hann að hætta þessu, en ákvað svo að svíkja okkur að fara til Noregs," sagði Ari léttur en Lars er orðinn 72 ára gamall.
„Ég á honum mjög mikið að þakka, hvernig hann tók mig inn í landsliðið og gerði mig þannig séð að vinstri bakverði. Hann trúði á mig. Eðlilega hef ég miklar mætur á þessum manni, bæði sem þjálfara og manneskju. Þetta er yndislegur maður."
„Við komumst á tvö stórmót og vorum nálægt því að fara á það þriðja með hans grunn hugmyndafræði. Heimir og Erik breyttu aðeins til og laga eftir því hvernig þeir vildu hafa þetta, en Lalli á klárlega heiðurinn af grunninum í landsliðinu."
„Tímarnir eru að breytast og við erum að fá upp fullt af flottum fótboltamönnum - ekki bara harðjöxlum sem hlaupa í gegnum leikmenn. Það er svo bara hvað KSÍ vill og hvað er það besta fyrir þennan hóp. Ég myndi ekki fara að gráta ef Lalli kæmi heim."
Hlusta má á umræðuna í heild sinni hér að neðan.
Athugasemdir