Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 21. apríl 2020 14:00
Hafliði Breiðfjörð
Pabbi Damirs lét sig hverfa endanlega að næturlagi
Damir Muminovic er gestur vikunnar í Miðjunni.
Damir Muminovic er gestur vikunnar í Miðjunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damir Muminovic varnarmaður Breiðabliks var bara þriggja ára gamall þegar pabbi hans lét sig hverfa að næturlagi og hefur aldrei séð hann síðan.

Hann segir frá þessu í podcastþættinum Miðjan hér á Fótbolta.net sem var birtur í dag.

Hlustaðu á þáttinn í spilaranum að neðan eða finndu hann á öllum helstu podcastveitum undir Fótbolti.net.

Hann er fæddur í Serbíu þar sem hann bjó fyrstu tíu árin áður en hann kom hingað til Íslands. Móðir hans er Serbi en faðir hans Bosníumaður.

„Ég hef ekki séð hann síðan ég var þriggja ára. Það eina sem ég man eftir honum er þegar ég var í fótbolta í bænum okkar og þegar hann kenndi mér að hjóla," segir Damir í viðtalinu.

„Það sem ég hef heyrt er að mamma hafi verið á næturvakt og svo vaknaði ég daginn eftir og þá var hann bara farinn, lét sig hverfa. Síðan þá hef ég ekkert heyrt í honum," hélt hann áfram.

„Mamma fékk eitthvað bréf sent heim frá honum þar sem hann var með útskýringar á þessu. Ég fékk aldrei að sjá það og man bara að það fauk beint í eldinn heima. Ég var því bara með mömmu frá því ég var þriggja ára."

Damir ræðir þetta frekar í viðtalinu að neðan og segist meðal annars ekki hafa áhuga á að hitta föður sinn enn þann dag í dag.

Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi eða verða vitni að ofbeldi.
Allt ofbeldi á heimili þar sem börn dvelja, er jafnframt ofbeldi gagnvart börnum. Ef þú býrð við slíkar aðstæður eða þekkir eitthvert barn sem býr við slíkar aðstæður þá áttu að hafa samband við 112. Þar getur þú rætt málin við lögreglu í fullum trúnaði. Samband er haft við barnaverndarnefnd ef ástæða er til. Mikilvægt er að hafa samband þótt þú sért í vafa. Einnig er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða netspjallið 1717.is. 1717 er opið allan sólarhringinn og þar er hægt að ræða við sérþjálfaða ráðgjafa í nafnleynd og fullum trúnaði.
Sjá meira á vef lögreglunnar

Miðjan - Damir upplifði mikið heimilisofbeldi
Athugasemdir
banner
banner
banner