Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 21. maí 2020 18:30
Brynjar Ingi Erluson
Vela: Last Dance minnti mig á Henry
Carlos Vela var frábær með LAFC á síðustu leiktíð
Carlos Vela var frábær með LAFC á síðustu leiktíð
Mynd: Getty Images
Mexíkóski framherjinn Carlos Vela segir að heimildarþættirnir The Last Dance hafi minnt hann á Thierry Henry en þeir voru liðsfélagar hjá Arsenal á Englandi.

Í þáttunum er fylgst með Chicago Bulls tímabilið 1997-1998 en það var síðasta tímabil Michael Jordan með liðinu. Þar er áður óséð efni af þessu magnaða sigurliði en þar má sjá þá ótrúlegu leiðtogahæfileika Jordan.

Carlos Vela, sem leikur með Los Angeles FC í MLS-deildinni í Bandaríkjunum, er búinn að hafa nóg fyrir stafni í samkomubanni og er hann meðal annars búinn að klára seríuna.

Hann hugsaði til Thierry Henry þegar hann horfði á þættina en þeir voru liðsfélagar hjá Arsenal frá 2005 til 2007. Henry er markahæsti leikmaðurinn í sögu Arsenal en hann var ótrúlegur með liðinu og einn besti leikmaður sem hefur spilað á Englandi.

„Thierry Henry var mjög harður náungi. Hann reyndi á hverjum degi að gera sitt besta og lét ungu leikmennina leggja harðar að sér, gera hlutina faglega og að gefa allt í allar æfingar," sagði Vela.

„Henry veitti mér innblástur og þú sérð bara ferilinn sem hann átti. Ég er stoltur að geta sagst hafa spilað með honum. Hann er góður leiðtogi."

Vela var magnaður á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 34 mörk í 31 leik og hjálpaði LAFC að komast í úrslit vesturdeildarinnar.

„Síðasta tímabil kom mér ekki á óvart. Þú ert ekki hér til að sjá það sem gerist daglega en þegar maður sér hvað Michael Jordan gerði þá fær maður sérstaka tilfinningu, sem er öðruvísi."

„Ég get lært mikið af Jordan. Þetta er hvatning og kannski þarf ég að vera harðari og gera hluti til að hjálpa liðsfélögum mínum að verða betri svo við getum unnið titla,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner