fös 21. maí 2021 20:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lengjudeildin: Fram og ÍBV með stórsigra - ÍBV komið á blað
Lengjudeildin
Guðjón Pétur skoraði fyrir ÍBV.
Guðjón Pétur skoraði fyrir ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar eru sjóðheitir.
Framarar eru sjóðheitir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV og Fram, liðunum sem var spáð efstu tveimur sætum Lengjudeildarinnar fyrir mót, unnu stórsigra í deildinni í dag.

ÍBV hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir heimsókn í Mosfellsbæ í kvöld. Vestamannaeyingar byrjuðu mjög vel og komust í 2-0 með stuttu millibili. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði úr vítaspyrnu á 15. mínútu og Sito bætti við öðru marki á 18. mínútu.

Staðan var 0-3 því Gonzalo Zamorano bætti við þriðja markinu áður en liðinu gengu til búningsklefa. „ÞVÍLÍK GÆÐI! Gonzalo keyrir á Georg og fer illa með hann. Kemst inn í teiginn og skrúfar hann fallega í fjærhornið. 0-3," skrifaði Þorgeir Leó Gunnarsson í beinni textalýsingu.

ÍBV gekk svo algjörlega frá leiknum snemma í seinni hálfleik. Gonzalo og Sito skoruðu - báðir með tvennu - og lokatölur 0-5. Það er spurning hvernig ÍBV fylgir þessum sigri eftir en liðið er núna komið með þrjú stig. Afturelding er einnig með þrjú stig.

Á toppi deildarinnar er Fram með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Fram vann öruggan sigur gegn Þórsurum á heimavelli í dag.

Indriði Áki Þorláksson skoraði fyrsta mark leiksins eftir tæpan stundarfjórðung og varnarmaðurinn Kyle Douglas McLagan bætti við öðru marki með skalla eftir hornspyrnu, stuttu fyrir leikhlé. Staðan var 3-0 í hálfleik því Fred Saraiva skoraði rétt áður en flautað var af.

Indriði Áki gerði sitt annað mark um miðbik seinni hálfleiks, en Bjarni Guðjón Brynjólfsson minnkaði muninn undir lokin fyrir Þór.

Fram er á toppnum en Þór er með þrjú stig, rétt eins og ÍBV og Afturelding.

Fram 4 - 1 Þór
1-0 Indriði Áki Þorláksson ('14 )
2-0 Kyle Douglas McLagan ('39 )
3-0 Frederico Bello Saraiva ('45 )
4-0 Indriði Áki Þorláksson ('67 )
4-1 Bjarni Guðjón Brynjólfsson ('93 )
Lestu nánar um leikinn

Afturelding 0 - 5 ÍBV
0-1 Guðjón Pétur Lýðsson ('15 , víti)
0-2 Jose Enrique Seoane Vergara ('18 )
0-3 Gonzalo Zamorano Leon ('45 )
0-4 Gonzalo Zamorano Leon ('50 )
0-5 Jose Enrique Seoane Vergara ('55 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner