fös 21. maí 2021 19:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Dramatík í toppslagnum - Fyrsti sigur ÍA
Nikolaj Hansen var hetjan í toppbaráttuslagnum.
Nikolaj Hansen var hetjan í toppbaráttuslagnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur Mar klúðraði víti á síðustu stundu.
Hallgrímur Mar klúðraði víti á síðustu stundu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
ÍA er á sigurbraut.
ÍA er á sigurbraut.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur Reykjavík er á toppi Pepsi Max-deildarinnar eftir sigur gegn KA í toppbaráttuslag á Dalvík í kvöld.

„Afskaplega tíðindalitlum fyrri hálfleik lokið á Dalvík. Helst í þessu er hvort Steinþór hafi verið innan teigs þegar Halli var dæmdur brotlegur gegn honum. Og Víkingur hefur fengið tíu hornspyrnur gegn engri hjá KA," sagði Sæbjörn Steinke í beinni textalýsingu þegar flautað var til hálfleiks.

Eftir rúman klukkutíma kom fyrsta mark leiksins þegar Nikolaj Hansen skoraði. „Einhverjir KA menn vildu rangstöðu en sýndist Dusan spila menn réttstæða," skrifaði Sæbjörn þegar Hansen skoraði eftir stoðsendingu Júlíusar Magnússonar.

Það var dramatík undir lokin þar sem KA fékk vítaspyrnu í uppbótartíma. Hallgrímur Steingrímsson fór á punktinn en skaut yfir markið.

Lokatölur 0-1 á Dalvík fyrir Víkinga sem eru núna aleinir á toppnum. Þeir verða það alla vega í tvo og hálfan tíma sirka. Þetta er fyrsta tap KA í sumar en þeir eru þremur stigum á eftir Víkingum sem fara einstaklega vel af stað.

Fyrsti sigur ÍA í sumar
Í Kórnum unnu gulir og glaðir Skagamenn sinn fyrsta sigur í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir lærisveina Jóa Kalla því Arnþór Ari Atlason kom HK yfir með frábæru skoti eftir átta mínútna leik.

Gestirnir af Akranesi jöfnuðu metin um miðbik fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu. Ásgeir Börkur Ásgeirsson braut á Morten Beck innan teigs og vítaspyrna var dæmd við litla hrifningu stuðningsmanna HK. Þórður Þorsteinn Þórðarson fór á vítapunktinn og skoraði, stöngin og inn.

Staðan var jöfn þegar flautað var til hálfleiks í þessum botnbaráttuslag. Í seinni hálfleiknum átti HK skot í slá og stöng áður en Viktor Jónsson kom Skagamönnum yfir.

Hallur Flosason fékk rautt spjald í uppbótartíma en tíu Skagakenn bættu við þriðja markinu. Ingi Þór Sigurðsson, bróðir Arnórs Sigurðssonar, skoraði þriðja mark Skagamanna í leiknum. ÍA er komið upp í sjöunda sæti með fimm stig á meðan HK er með tvö stig í tíunda sæti.

HK 1 - 3 ÍA
1-0 Arnþór Ari Atlason ('8 )
1-1 Þórður Þorsteinn Þórðarson ('25 , víti)
1-2 Viktor Jónsson ('72 )
1-3 Ingi Þór Sigurðsson ('90)
Rautt spjald: Hallur Flosason, ÍA ('90)
Lestu nánar um leikinn

KA 0 - 1 Víkingur R.
0-1 Nikolaj Andreas Hansen ('61 )
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('95 , misnotað víti)
Lestu nánar um leikinn

Aðrir leikir kvöldsins:
19:15 Breiðablik - Stjarnan
20:00 Fylkir - Keflavík
20:15 Valur - Leiknir
Athugasemdir
banner
banner