fös 21. júní 2019 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Aron Bjarna vonast til að byrja á morgun: Mikil samkeppni í liðinu
Aron Bjarnason fór á kostum í síðasta leik.
Aron Bjarnason fór á kostum í síðasta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Aron Bjarnason fór á kostum í 3-1 sigri Breiðabliks á Stjörnunni á þriðjudaginn í 9. umferð Pepsi Max-deildar karla.

Aron kom inná í upphafi seinni hálfleiks í stöðunni 1-0 fyrir Stjörnunni en breytti heldur betur gangi leiks með þvílíkum krafti, skoraði glæsilegt mark og lagði einnig upp þriðja mark Breiðabliks fyrir Alexander Helga Sigurðarson. Stjörnumenn réðu ekkert við hann.

Aron segir að Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks hafi ekkert talað sérstaklega við hann fyrir leikinn áður en byrjunarliðið fyrir leikinn var tilkynnt.

„Hann kom til mín í fyrri hálfleiknum og sagði mér að ég myndi koma inná í seinni hálfleik og ég ætti að breyta leiknum. Ég undirbjó mig fyrir það og gerði vel þegar ég kom inná," sagði Aron sem viðurkennir að hann hafi verið svekktur að byrja á bekknum.

„Maður vill auðvitað alltaf byrja en síðan er mikil samkeppni í liðinu. Ég var ákveðinn í því að breyta leiknum þegar ég kæmi inná, sérstaklega þar sem við vorum lentir undir."

Breiðablik mætir ÍBV í 10. umferð Pepsi Max-deildarinnar á morgun á Kópavogsvellinum klukkan 14:00. Aron þekkir vel til í ÍBV en hann lék með liðinu tímabilin 2015 og 2016. Hann segist vera spenntur að mæta sínu gamla félagi.

„Ég átti tvö góð ár í Eyjum og ég er spenntur að mæta ÍBV. Þeir eru með breytt lið frá því í fyrra þannig við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir leikinn. Það eru einhverjir 5-6 leikmenn ennþá í liðinu frá því ég var í því," sagði Aron og nefnir þar á meðal leikmenn á borð við Sindra Snæ Magnússon, Felix Örn, Halldór Pál, Matt Garner og fleiri.

Aron er sammála því að Breiðablik sé sigurstranglegra liðið fyrir leikinn á morgun.

„Við höfum brennt okkur á því að mæta ekki alveg klárir í leiki. Við þurfum að mæta alveg 100% í leikinn á morgun, það er alveg ljóst. Þeir unnu ÍA fyrir ekki svo löngu þegar þeir voru á toppnum. Það er því alveg ljóst að við þurfum að vera klárir," sagði Aron sem var spurður að því í lokin hvort hann yrði í byrjunarliðinu á morgun?

„Ég veit það ekki ennþá. Ég vona það," sagði Aron Bjarnason leikmaður Breiðabliks að lokum í samtali við Fótbolta.net.

laugardagur 22. júní
14:00 Breiðablik-ÍBV (Kópavogsvöllur)
17:00 ÍA-HK (Norðurálsvöllurinn)

sunnudagur 23. júní
16:00 Valur-Grindavík (Origo völlurinn)
16:00 Stjarnan-Fylkir (Samsung völlurinn)
17:00 KA-Víkingur R. (Greifavöllurinn)
19:15 FH-KR (Kaplakrikavöllur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner