Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 21. júní 2020 10:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2. deild kvenna: 2. sæti
HK er spáð 2. sæti í 2. deild
HK er spáð 2. sæti í 2. deild
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Isabella Eva Aradóttir er fyrirliði HK
Isabella Eva Aradóttir er fyrirliði HK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markaskórnir eru komnir af hillunni hjá Kareni Sturludóttur
Markaskórnir eru komnir af hillunni hjá Kareni Sturludóttur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-7 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2. HK
3. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
4. Hamrarnir
5. Sindri
6. Álftanes
7. ÍR
8. Fram
9. Hamar

Lokastaða í fyrra: Sameiginlegt lið HK/Víkings endaði í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar.

Þjálfari: Jóhann Bergur Kiesel tók við liði HK í haust. Þetta er hans fyrsta starf sem aðalþjálfari meistaraflokks en hann þjálfaði 2.flokk kvenna hjá HK/Víking á síðasta tímabili og hefur töluverða reynslu af yngri flokka þjálfun.

HK og Víkingur slitu samstarfi sínu í haust og HK leikur nú í 2. deild. Það er mikill metnaður settur í umgjörðina í kringum liðið og HK hefur gert vel í að búa til sterkan leikmannahóp fyrir komandi verkefni.

Lykilmenn: Isabella Eva Aradóttir, Hrafnhildur Hjaltalín, Ragnheiður Kara Hálfdánardóttir

Gaman að fylgjast með: Karen Sturludóttir hefur tekið skónna af hillunni og verður með HK í 2. deildinni í sumar. Hún spilaði síðast 2016 en átti mjög farsælan feril, uppfullan af mörkum, með HK/Víkingum.

Við heyrðum í Jóhanni þjálfara og spurðum út í spánna og sumarið:

Hvað finnst HK-ingum um að vera spáð 2. sætinu?

„Okkur líst bara vel á það. Spáin kemur bæði á óvart og ekki. Við erum nýtt lið í deildinni og því hefði það ekki komið mér á óvart að vera spáð neðar. Við höfum hinsvegar sett saman öflugan hóp leikmanna, þannig spáin kemur kannski ekki á óvart."

Hver eru markmið HK í sumar?

„Markmiðið er einfalt. Við ætlum okkur að vinna deildina. Við teljum okkur hafa gæði í hópnum til að ná því markmiði," svaraði Jóhann sem var nokkuð ánægður með undirbúningstímabilið miðað við aðstæður.

„Það hefur gengið fínt. Stoppið setti auðvitað ákveðið strik í reikninginn eins og hjá öllum öðrum. Við vorum að ná inn nýjum leikmönnum í hópinn rétt fyrir stopp og planið var að nota Lengjubikarinn til að spila liðinu saman. Við tókum þátt í Faxaflóamótinu og vorum þar í góðum riðli nær eingöngu með liðum úr Lengjudeildinni. Við gáfum öllum liðum leik og vorum við þjálfararnir þokkalega sáttir með frammistöðu liðsins."

Hvernig er nýja HK liðið samsett?

„Við höfum lagt mikið upp úr því að byggja liðið sem mest á HK stelpum. Í æfingahóp hjá meistaraflokki eru 15 HK stelpur. Við höfum síðan bólstrað þær stöður sem upp á vantar með öflugum leikmönnum. Við höfum reynt að vanda valið og tekið inn leikmenn sem passa inn í hópinn. Ásamt því að fá inn reynslu meiri leikmenn til að styðja við ungt lið. Samhliða því hefur verið sett saman öflugt meistaraflokksráð sem er að búa til rosalega góða, flott og metnaðarfulla umgjörð í kringum liðið."

Við spurðum Jóhann að lokum hvernig hann sæi fyrir sér að deildin spilaðist.

„Það er erfitt að segja. Ég hef lítið séð af liðinum í deildinni. En ég gæti allt eins séð deildina skiptast í tvennt."

Keppni í 2. deild hefst í dag en HK tekur á móti Hamar kl.14:00 í Kórnum.

Komnar:
Anna Ragnhildur Sól Ingadóttir frá Stjörnunni
Ester Lilja Harðardóttir frá Þrótti R.
Hrafnhildur Hjaltalín frá Fjölni
Isabella Eva Aradóttir frá Breiðablik
Kristrún Kristjánsdóttir frá Víkingi R.
Lára Ósk Albertsdóttir frá Aftureldingu
Laufey Elísa Hlynsdóttir frá Víkingi R.
Sara Freysdóttir frá Víkingi R.

Farnar:
Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir í FH
Dagný Rún Pétursdóttir í Víking Reykjavík

Fyrstu leikir HK:
21. júní HK - Hamar
28. júní HK - Hamrarnir
5. júlí Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir - HK
Athugasemdir
banner
banner
banner