banner
   lau 21. ágúst 2021 13:35
Brynjar Ingi Erluson
England: Jota og Mane afgreiddu Burnley
Sadio Mane skorar annað mark leiksins
Sadio Mane skorar annað mark leiksins
Mynd: EPA
Kostas Tsimikas og Dogo Jota sáu um fyrsta markið
Kostas Tsimikas og Dogo Jota sáu um fyrsta markið
Mynd: EPA
Liverpool 2 - 0 Burnley
1-0 Diogo Jota ('18 )
2-0 Sadio Mane ('69 )

Tímabilið fer vel af stað hjá Liverpool sem vann Burnley 2-0 í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í dag. Diogo Jota og Sadio Mane skoruðu mörk heimamanna.

Það voru gestirnir í Burnley sem ógnuðu marki á 4. mínútu. Dwight McNeil átti skot í stöng eftir sendingu frá Chris Wood en það hefði ekki talið þar sem búið var að flagga rangstöðu.

Mike Dean, dómari leiksins, gaf Nick Pope, markverði Burnley, aðvörun fyrir að sóa tíma á fyrstu mínútum leiksins sem þótti fremur undarlegt miðað við að aðeins sjö mínútur voru liðnar af leiknum.

Fyrsta markið kom ellefu mínútum síðar. Kostas Tsimikas átti fallega fyrirgjöf inn í teiginn og var Diogo Jota mættur til að afgreiða boltann í netið. Annað markið sem Jota skorar á tímabilinu.

Mohamed Salah kom boltanum í netið örfáum mínútum síðar en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Undir lok fyrri hálfleiksins var Alisson nálægt því að gefa Burnley jöfnunarmark er hann keyrði út. James Tarkowski var fyrstur til boltans og var gegn opnu marki en skaut framhjá.

Ashley Barnes skoraði í upphafi síðari hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Báðir dómar réttir hjá VAR.

Liverpool skapaði sér urmul af færum og kom annað markið ekki fyrr en á 69. mínútu eftir gott spil. Virgil van Dijk átti langan bolta út á hægri vænginn á Harvey Elliott, sem fann Trent Alexander-Arnold á miðjunni. Trent kom boltanum strax inn í svæði á Sadio Mane sem tók hann í fyrsta framhjá Nick Pope.

Jóhann Berg Guðmundson var í byrjunarliði Burnley en var skipt af velli á 79. mínútu.

Burnley fékk nokkur frábær færi undir lokin. Alisson varði fyrst frá Jay Rodriguez áður en Ben Mee átti frían skalla framhjá markinu. Þá komst Barnes einn í gegn á móti Alisson en sá brasilíski varði meistaralega.

2-0 sigur Liverpool staðreynd. Sanngjarn sigur og liðið með tvo sigra úr fyrstu tveimur leikjunum. Burnley er enn án stiga.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner