Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 21. nóvember 2017 12:00
Magnús Már Einarsson
Ási Haralds: Verkefni hjá kvennalandsliðinu verða alltaf í forgangi
Ásmundur Haraldsson.
Ásmundur Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Nafn mitt kom upp í umræðunni hjá Óla í síðustu viku. Út frá því fóru hlutirnir af stað. Þetta gekk mjög fljótt fyrir sér eftir að við Óli hittumst og töluðum saman," sagði Ásmundur Haraldsson, nýráðinn aðstoðarþjálfari FH, við Fótbolta.net í dag.

Ásmundur var í gær ráðinn aðstoðarþjálfari FH en hann mun vera Ólafi Kristjánssyni til aðstoðar.

Ásmundur hefur verið aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins og hann heldur því starfi áfram. Hann segir lítið um árekstra í starfinu.

„Verkefni hjá kvennalandsliðinu verða alltaf í forgangi. Ég verð alltaf laus til að vera með landsliðinu þegar það kemur saman á alþjóðlegum leikdögum. Við höfum unnið þetta í sameiningu. Við höfum áður verið í þessari stöðu, þar sem ég hef verið að þjálfa einhversstaðar. Við höfum unnið þetta í sameiningu og með góðu skipulagi," sagði Ásmundur.

Ásmundur er spenntur fyrir því að takast á við verkefnið í Kaplakrika.

„Það er frábært tækifæri að komast þarna inn og vera með öllum þessum frábæru leikmönnum. Það er frábært að komast inn með Óla. Ég þekki hann frá fornu fari og í gegnum þjálfunina líka. Hann var til dæmis leiðbeinandi minn á A námskeiðinu fyrir tíu árum."

„Hann veit heilmikið um fótbolta og það verður frábært að fá að læra af honum og leggja mitt að mörkum. FH er sigursælasta lið síðustu ár og það er mikill metnaður og fagmennska þar. Það er frábært að fá tækifæri til að taka þátt í því."


Ásmundur þekkir aðeins til í Kaplakrika því hann spilaði sjálfur með FH árið 1997.

„Ég þekki til í Krikanum en það hefur margt breyst síðan þá. Aðstaða, umgjörð og annað. Við vorum í 1. deildinni þarna að berjast um sæti í efstu deild," sagði Ásmundur að lokum.

FH spilar sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu þegar liðið mætir Stjörnunni í Kórnum klukkan 20:15 í kvöld í Bose-mótinu. Leikurinn verður sýndur beint á SportTv.
Athugasemdir
banner
banner
banner