Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mán 21. desember 2020 19:24
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
England: Burnley hélt út gegn Úlfunum - Barnes skoraði loksins
Langþráðu marki fagnað.
Langþráðu marki fagnað.
Mynd: Getty Images
Burnley 2 - 1 Wolves
1-0 Ashley Barnes ('35 )
2-0 Chris Wood ('51 )
2-1 Fabio Silva ('89, víti)

Burnley vann heimasigur á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liðinu tókst að skora tvö mörk í heimaleik í fyrsta sinn síðan í febrúar á þessu ári.

Ashley Barnes skoraði fyrra mark liðsins og var það langþráð mark, Barnes hafði ekki skorað síðan í nóvember í fyrra. Nýsjálenski markahrókurinn Chris Wood skoraði annað mark Burnley á 51. mínútu leiksins.

Allt stefndi í að Burnley myndi sigla sigrinum nokkuð þægilega í höfn þegar Josh Benson kom inn á sem varamaður á 88. mínútu. Mínútu síðar hafði hann gerst brotlegur inn á teig Burnley og Fabio Silva skorað úr vítaspyrnu. Fyrsta mark unga Portúgalans í úrvalsdeildinni.

Fimm mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en þrátt fyrir það tókst Wolves ekki að jafna. Wolves var talsvert meira með boltann í leiknum en tókst ekki að skora meira en eitt mark.

Burnley er komið upp úr fallsæti og upp í 16. sætið. Wolves er áfram í 11. sætinu. Burnley á leik til góða og var að vinna sinn annan heimasigur í síðustu þremur heimaleikjum.

Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki með Burnley vegna meiðsla. Chelsea tekur á móti West Ham í lokaleik 14. umferðar. Sá leikur hefst klukkan 20:00 á Stamford Bridge.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner