mán 21. desember 2020 15:15
Magnús Már Einarsson
Lagt til að fjölga leikjum í 27 í Pepsi Max-deildinni
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Starfshópur á vegum KSÍ hefur skilað frá sér skýrslu um fjölgun leikja í Pepsi Max deildinni. Starfshópurinn hefur starfað á þessu ári og skoðað ýmsar leiðir til að fjölga leikjum.

Starfshópurinn leggur til að frá og með keppnistímabilinu 2022 verði keppnisfyrirkomulagi Pepsi Max deildar karla breytt.

Áfram verða tólf lið í deildinni og tvöföld umferð. Að því loknu verður skipt upp í efri hluta og neðri hluta (6 félög í hvorum hluta) og spiluð einföld umferð.

Í úrslitakeppni efri hlutans er leikið um Íslandsmeistaratitilinn og sæti í Evrópukeppnum félagsliða. Í úrslitakeppni neðri hlutans er leikið með sambærilegum hætti um að forðast fall. Félögin taka með sér stigin úr fyrri hluta mótsins.

Niðurstaða starfshópsins
Það er sorgleg staðreynd að íslensku félagsliðin (karla) hafa hrapað niður styrkleikalista UEFA með þeim afleiðingum að frá og með keppnistímabilinu 2022 mun Ísland einungis eiga þrjú sæti í Evrópukeppnum félagsliða. Tölurnar tala sínu máli, Ísland hefur fallið um 17 sæti á mjög skömmum tíma og situr nú í sæti 52 af 55 þjóðum í Evrópu. Það er því verk að vinna í þessum málum.

Eitt af markmiðum hópsins er að “Auka gæði og samkeppnishæfni íslenskrar knattspyrnu og leikmanna sem leika á Íslandi“. Að mati hópsins er mikilvægt að auka möguleika félaga og leikmanna að taka skref fram á við til að bæta gæði og fagmennsku. Það verði best gert með því að fjölga betri leikjum og lengja keppnistímabilið. Samfara því að tækifæri til tekjuöflunar verði aukin. Í því samhengi þarf að hafa í huga að nýr sjónvarps- og markaðsréttarsamningur deildarinnar rennur út að loknu keppnistímabilinu 2021.

Við mat á þeim þremur aðferðum sem hópurinn skoðaði sérstaklega var lagt til grundvallar hvaða aðferðir samræmdust best þeim markmiðum sem starfshópurinn setti sér. Að fjölga liðum úr 12 í 14 lið og leika mótið með sambærilegum hætti og verið hefur, þ.e. leika tvo leiki við hvert hinna liðanna, heima og að heima, er að mati hópsins ekki til þess fallið að auka gæði deildarinnar. Jafnframt eru líkur á því að meðalaðsókn á leikina myndi dragast saman. Heildarfjöldi leikja í þessari aðferð eykst um 38% þó leikjum pr. lið fjölgi einungis um 4 leiki. Kostnaður við dómgæslu eykst mest af þeim aðferðum sem skoðaðar voru sérstaklega. Þó þessi aðferð samræmist ágætlega ýmsum markmiðum hópsins eins og t.d. að nýta betur fjárfestingu aðildarfélaganna í leikmönnum og starfsmönnum, þá telur hópurinn að til séu mun betri aðferðir til að ná settum markmiðum.

Að fækka liðum í 10 og leika þrefalda umferð samræmist flestum þeim markmiðum sem hópurinn setti sér. Sérstaklega hvað varðar gæði leikjanna. Ef skoðaðar eru aðsóknartölur Pepsi Max deildar karla 2019 þá eykst meðalaðsókn á leiki ef ekki eru teknir með í reikninginn leikir hjá liðunum tveimur sem féllu. Með þessari að ferð er lítil heildarfjölgun leikja, þ.e. einungis 3, þannig að hækkun á dómarakostnaði er óveruleg. Breyting á mótahaldi þarf að hafa víðan stuðning svo breytingin nái fram að ganga og takist vel í framkvæmd. Fækkun liða í deildinni, og það að þessi aðferð gæti mögulega aukið misskiptingu tekna milli félaga, ásamt því að hafa áhrif í neðri deildir, er líklega ekki til þess fallin að fá víðan stuðning. Einnig ber að hafa í huga að ekki er mikil reynsla af mótafyrirkomulagi með þessari aðferð í Evrópu.

12 liða deild þar sem leikið er heima og að heiman líkt og nú er, skipta síðan deildinni í tvo hluta og leika til úrslita, er að mati hópsins sú aðferð sem samræmist best þeim markmiðum sem hópurinn setti sér. Úrslitakeppni mótsins eykur spennu og gæði leikjanna, mikil keppni getur skapast um að ná 6. sæti deildarinnar í fyrri hluta mótsins. Þetta form með hæfilegri fjölgun leikja, er eitthvað nýtt sem gefur ýmis markaðsleg tækifæri m.a. í sölu markaðsréttinda. Líklegt er að aðsókn á leiki aukist, sérstaklega í úrslitakeppninni. Þessi aðferð er að mati hópsins best til þess fallin að auka tekjur félaganna. Breytingin hefði ekki áhrif á aðrar deildir og fjölda liða í Pepsi Max deild karla. Fjöldi landa notar svipað mótafyrirkomulag í sínum löndum.

Að teknu tilliti til ofangreindra þátta þá leggur starfshópurinn til að frá og með keppnistímabilinu 2022 verði keppnisfyrirkomulagi Pepsi Max deildar karla breytt og leikið með 12 liðum sem byrja á því að leika tvöfalda umferð (heima og að heiman). Að því loknu verði mótinu skipt upp í efri og neðri hluta. 6 félög í hvorum hluta sem leika einfalda umferð, þ.e. 5 leiki pr. lið. Í úrslitakeppni efri hlutans er leikið um Íslandsmeistaratitilinn og sæti í Evrópukeppnum félagsliða. Í úrslitakeppni neðri hlutans er leikið með sambærilegum hætti um að forðast fall. Félögin taka með sér stigin úr fyrri hluta mótsins. Röð liða í fyrri hluta mótsins ræður því hvaða félög fá fleiri heimaleiki í úrslitakeppni mótsins. Þannig myndu lið nr. 1,2,3 og 7,8,9 fá þrjá heimaleiki en hin liðin tvo heimaleiki. Það er von starfshópsins að þessi skýrsla skapi umræðu um þróun mótsins og að breið sátt náist um næstu skref.

Lestu skýrsluna í heild sinni
Athugasemdir
banner