Enska landsliðskonan Beth Mead er íþróttakona/maður ársins (e. Sports personality of the year), en það er BBC sem velur þetta á ári hverju.
Verðlaunin eru einhver þau eftirsóttustu á Bretlandseyjum en aðeins fimm fótboltamenn höfðu unnið verðlaunin á undan henni.
Bobby Moore, Paul Gascoigne, Michael Owen, David Beckham og Ryan Giggs hafa allir hlotið þessi verðlaun og Mead því komin í fámennan hóp.
Mead var markahæst á EM í sumar er England vann mótið en hún skoraði sex mörk og lagði upp fimm. Hún var einnig valin besti leikmaður mótsins.
Enski framherjinn er talin ein sú besta í heiminum og er vel að verðlaununum komin. Breska þjóðin kýs um sigurvegara og var Mead fyrir valinu en BBC tilkynnti niðurstöðurnar í kvöld.
Krikketspilarinn Ben Stokes var í öðru og svo var krullkonan, Eve Muirhead, í þriðja sæti, en hún fagnaði gullverðlaunum á vetrarólympíuleikunum fyrir hönd Bretlands.
Athugasemdir