Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í toppliði Panathinaikos gerðu 1-1 jafntefli við Ionikos í grísku úrvalsdeildinni í dag en þetta var fyrsti leikurinn í deildinni eftir frí.
Panathinaikos vann tólf leiki og gerði eitt jafntefli í deildinni fyrir fríið og var með átta stig forystu á toppnum.
Liðið fékk ágætis æfingu fyrir þennan leik en liðið vann Volos, 3-0, í fyrri leik liðanna í bikarnum á dögunum, en það náði ekki að fylgja sigrinum eftir í kvöld.
Brasilíski sóknartengiliðurinn Bernard kom liðinu í forystu í fyrri hálfleik en þegar sex mínútur voru eftir jöfnuðu heimamenn með góðu skoti við vítateigslínuna.
Hörður Björgvin lék allan leikinn í vörn Panathinaikos sem er nú með sex stiga forystu á toppnum þar sem AEK vann sinn leik örugglega.
Ögmundur Kristinsson var ekki í hópnum hjá Olympiakos sem gerði 2-2 jafntefli við PAS Giannina. Olympiakos er í 3. sæti með 26 stig, tólf stigum frá toppliði Panathinaikos.
Athugasemdir