mið 21. desember 2022 11:40
Elvar Geir Magnússon
Jói Berg: Fækkar okkar vandamálum að Ronaldo sé farinn
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Getty Images
Old Trafford.
Old Trafford.
Mynd: Getty Images
„Þeir verða væntanlega ekki með sitt sterkasta lið og vonandi getum við nýtt okkur það. Við förum með sjálfstraust inn í leikinn og allt getur gerst í bikarleikjum," segir Jóhann Berg Guðmundsson, íslenski landsliðsmaðurinn hjá Burnley.

Burnley, sem er í efsta sæti ensku Championship-deildarinnar, mætir Manchester United í deildabikarnum á Old Trafford í kvöld.

Samningi Cristiano Ronaldo við Manchester United var rift með látum nýlega og portúgalska ofurstjarnan hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

„Ég hef spilað nokkrum sinnum gegn honum en ég reikna með að nokkrir af ungu leikmönnunum séu klárlega svekktir að hafa hann ekki inni á vellinum," segir Jóhann Berg.

„Hann hefur verið stórkostlegur leikmaður en hann er farinn og Manchester United stuðningsmenn horfa fram veginn. Það fækkar vandamálunum okkar að hann sé farinn því hann getur skapað mikla hættu í teignum. Það er jákvætt fyrir okkur að hann sé farinn."

Jóhann Berg var ósigraður með Burnley á Old Trafford áður en liðið tapaði 3-1 á þessum goðsagnakennda leikvangi á síðasta tímabili.

„Við viljum snúa aftur í ensku úrvalsdeildina svo það er gott tækifæri að mæta svona góðu liði eins og Manchester United og sýna hvað í okkur býr. Ef við náum upp því sama og í síðustu leikjum verður þetta erfiður leikur fyrir þá. Við þekkjum þeirra styrkleika og allir okkar menn þurfa að sýna sína bestu frammistöðu til að við eigum góða möguleika á að komast áfram," segir Jóhann Berg.

Leikur Manchester United og Burnley hefst klukkan 20 í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner