Íslenski varnarmaðurinn Róbert Orri Þorkelsson er kominn með nýjan þjálfara hjá kanadíska liðinu Montreal en félagið tilkynnti þetta í dag.
Franski þjálfarinn Wilfried Nancy hætti með liðið í byrjun desember og tók það Montreal ekki langan tíma að finna arftaka hans.
Hérnan Losada er nýr þjálfari liðsins en sá er argentínskur og hefur þjálfað Beerschot í Belgíu og nú síðast D.C. United áður en Wayne Rooney tók við liðinu.
Róbert kom við sögu í ellefu leikjum með Montreal í MLS-deildinni á síðustu leiktíð en það er spurning hvort hann eigi eftir að fá fleiri tækifæri undir stjórn Losada.
Montreal hafnaði í 2. sæti Austur-deildarinnar á tímabilinu og bætti þar félagsmet með þvi að vinna tuttugu leiki. Liðið datt hins vegar út í undanúrslitum Austur-deildarinnar í úrslitakeppninni eftir að hafa tapað fyrir New York City FC, 3-1.
Athugasemdir