Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 22. janúar 2019 20:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjög ánægður Emil er ekki á leiðinni heim í Pepsi-deildina
Emil Hallfreðsson í leik með Frosinone.
Emil Hallfreðsson í leik með Frosinone.
Mynd: Getty Images
Emil sló í gegn með FH á sínum tíma. Hann er ekki á leið í Pepsi-deildina.
Emil sló í gegn með FH á sínum tíma. Hann er ekki á leið í Pepsi-deildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil og landsliðsþjálfarinn Erik Hamren.
Emil og landsliðsþjálfarinn Erik Hamren.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson rifti í dag samningi sínum við ítalska félagið Frosinone.

Emil skrifaði undir tveggja ára samning við Frosinone síðasta sumar en hefur ekki spilað síðan 5. otkóber vegna hnémeiðsla. Frosinone er í erfiðri stöðu í ítölsku A-deildinni, liðið er með 10 stig og situr í fallsæti, sjö stigum frá öruggu sæti.

Af hverju er þessi ákvörðun tekin núna?

„Ég og klúbburinn semjum um að vera ekki mikið að tjá okkur um þetta, hvorugur aðili. Það er samkomulag á milli mín og Frosinone að vera ekki að fara út í smáatriði," sagði Emil í samtali við Fótbolta.net í kvöld.

„Þetta er ákvörðun sem ég er mjög ánægður með. Það voru einhver atriði sem ég var ekki ánægður með og atriði sem þeir voru kannski ekki ánægðir með. Ég hefði getað verið þarna í eitt og hálft ár og setið á einhverjum peningum, en ég vil stjórna minni framtíð sjálfur. Maður var kannski ekki alveg nógu ánægður með gang mála."

„Það eina sem ég get sagt er að þetta var sameiginleg ákvörðun og ég er mjög ánægður með starfslokasamninginn."

„Þetta er best fyrir minn feril, algjörlega. Ég ákvað að fara þarna síðasta sumar, í hörkustandi og var með mikinn metnað fyrir þessu, en svo kom það upp að ég þurfti að fara í hnéaðgerð."

„Þetta var best fyrir mig í stöðunni, annars hefði ég ekki gert þetta. Ég vil frekar að mér líði vel og vera sáttur með allt í kringum mig, frekar en að sitja á einhverjum peningum og vera ekki sáttur."

Þessi 34 ára miðjumaður fór í aðgerð í desember og er enn á meiðslalistanum. Þegar Fótbolti.net heyrði í honum var hann í Barcelona þar sem hann er að hitta lækninn sem framkvæmdi aðgerðina á honum.

„Ég býst við því að vera klár eftir tvo mánuði, þetta er á góðri leið. Ég er í Barcelona, að fara í endurmat á morgun. Ég fór í aðgerð hjá einum besta hnésérfræðingi Evrópu og þótt víðar væri leitað. Hann vildi fá mig í endurmat og það kemur betur í ljós hver staðan er eftir það. Ég býst við því að það verði nokkuð gott."

Með mikinn umhugsunartíma
Emil hefur stærstan hluta ferils síns spilað á Ítalíu en hann hefur leikið tæplega 300 leiki fyrir Reggina, Verona og Udinese.

Nokkrar líkur eru á því að tveir af félögum hans í landsliðinu, þeir Birkir Már Sævarsson og Hannes Þór Halldórsson muni spila með Val í Pepsi-deildinni næsta sumar. Emil er ekki á sömu leið, hann ætlar að vera áfram úti.

„Nei. Ég verð áfram úti. Ég hef fullan metnað fyrir því að vera áfram úti og held að ég hafi margt fram að bera til að spila áfram úti, á hærra getustigi en í Pepsi-deildinni með fullri virðingu fyrir henni," sagði Emil.

„Ég er ekki á heimleið strax, ég býst við því að vera áfram á Ítalíu."

„Ég er fyrst og fremst að hugsa um að ná mér heilum. Það hefur verið einhver áhugi, það snýst um að velja rétt þegar að því kemur."

Emil hefur nægan tíma til umhugsunar. Hann getur samið við hvaða félag sem er á Ítalíu þangað til 28. febrúar.

Miklir möguleikar að komast á þriðja stórmótið í röð
Emil var besti leikmaður íslenska landsliðið á HM í Rússlandi síðasta sumar. Honum líst vel á undankeppni EM sem er framundan á þessu ári en þar á Ísland möguleika á því að komast á sitt þriðja stórmót í röð.

„Mér líst mjög vel á þetta, ég held að þetta sé frábær riðill og það verður mjög skemmtilegt að takast á við þetta. Það eru miklir möguleikar að komast áfram á mótið," sagði Emil sem á 67 landsleiki að baki.

Ísland er í riðli með Heimsmeisturum Frakklands, Tyrklandi, Albaníu, Moldavíu og Andorra.

Ísland hefur ekki unnið alvöru fótboltaleik síðan í október 2017, en Emil hefur samt sem áður fulla trú á verkefninu sem framundan er.

„Það hafa verið neikvæðisraddir í kringum landsliðið, en það er búið að vera mikið um meiðsli undanfarið og þegar við allir strákarnir erum komnir í stand þá hef ég enga trú á öðru en að það séu miklir möguleikar að komast á EM," sagði Emil að lokum.

Ísland mætir Andorra og Frakklandi ytra í mars. Emil viðurkennir að hann verði líklega ekki klár í það verkefni. Hann verður þó klár í júní þegar við mætum Tyrklandi og Albaníu hér heima.

Leikir Íslands í undankeppni EM:
22. mars Andorra - Ísland
25. mars Frakkland - Ísland
8. júní Ísland - Albanía
11. júní Ísland - Tyrkland
7. septmber Ísland - Moldavía
10. september Albanía - Ísland
11. október Ísland - Frakkland
14. október Ísland - Andorra
14. nóvember Tyrkland - Ísland
17. nóvember Moldavía - Ísland
Athugasemdir
banner