Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 22. janúar 2019 21:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir Salah fara niður svo hann geti unnið gullskóinn
Mohamed Salah.
Mohamed Salah.
Mynd: Getty Images
Mark Clattenburg, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, hefði gefið Mohamed Salah gult spjald fyrir leikaraskap í 4-3 sigri Liverpool á Crystal Palace um síðastliðna helgi.

Salah hefur verið í umræðunni fyrir leikræn tilþrif. Egyptinn hefur krækt í vítaspyrnur gegn Brighton, Arsenal og Newcastle. Hann lét sig falla í sigrinum gegn Crystal Palace um liðna helgi og hefur fengið mikla gagnrýni fyrir.

Salah skoraði tvö mörk í leiknum en Liverpool trónir á toppi deildarinnar.

„Mo Salah fór niður án snertingar frá Mohamed Sakho. Hann var að reyna að blekkja dómarann, sem hefði átt að gefa honum gula spjaldið," sagði Clattenburg við Daily Mail.

„Salah var ásakaður um að fara auðveldlega niður til að fá vítaspyrnur gegn Arsenal og Newcastle. Þegar hann fær þessar vítaspyrnur er hann ekki í möguleika á að skora, hann virðist frekar vilja fá vítaspyrnu."

„Hann er vítaskytta Liverpool, hann veit að með því að vinna vítaspyrnu fær hann frítt skot að marki. Hann verður þar með líklegri til að vinna gullskóinn. Eitt sem ég hef tekið eftir, er þegar Salah fer niður að sækja vítaspyrnur, þá fara hendur hans upp fyrir höfuð."

„Það er eitt af því sem dómarar skoða þegar þeir reyna að sjá hvort leikmaður hafi verið leikna tilburði. Vanalega, þegar þú ert felldur, þá fara hendurnar beint niður."

„Þangað til myndbandsdómgæsla verður notuð, ef leikmaður gerist sekur um leikaraskap, þá á bann að fylgja - sama hver ákvörðun dómarans er," sagði Clattenburg.

Þess má geta að Salah er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 16 mörk.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner