Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mán 22. mars 2021 23:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Beið í smá tíma eftir einhverju svari sem kom aldrei og það var pínu fúlt"
Ég verð KA-maður alla mína ævi
Ég verð KA-maður alla mína ævi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svo ég taki það fram að ég er ekkert fúll út í KA eða neinn ef að staðan var sú að þeir vildu mig ekki áfram
Svo ég taki það fram að ég er ekkert fúll út í KA eða neinn ef að staðan var sú að þeir vildu mig ekki áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Að sama skapi heyrði ég aldrei í Arnari þjálfara, ég hef því ekki hugmynd um hvort Arnar vildi fá mig eða ekki.
Að sama skapi heyrði ég aldrei í Arnari þjálfara, ég hef því ekki hugmynd um hvort Arnar vildi fá mig eða ekki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Svo, ef ég á að vera alveg heiðarlegur, þá heyri ég ekkert frá KA í dágóðan tíma og tók því eiginlega sem svo að þeir væru hættir við þetta."

Almarr Ormarsson gekk í raðir Vals frá uppeldisfélagi sínu KA fyrir um mánuði síðan. Almarr skrifaði undir tveggja ára samning en hann hafði leikið fyrir norðan undanfarin tvö tímabil.

Almarr er miðjumaður og bar hann fyrirliðabandið hjá KA á síðasta tímabili. Fótbolti.net heyrði í Almari í kvöld og spurði hann út í félagaskiptin. Hluti viðtalsins fór í það að ræða hvers vegna Almarr framlengdi ekki við KA.

Þú ert uppalinn KA maður og hefur leikið með liðinu fjórar af síðustu fimm leiktíðum. Af hverju varstu ekki áfram hjá félaginu?

„Fjölskylduaðstæður hjá mér hafa verið þannig að þetta hefur alltaf verið smá púsluspil. Ég var að ræða við KA í nóvember um mögulegt áframhald og við fjölskyldan vorum alveg tilbúin að skoða það að taka jafnvel tímabil þar sem við myndum öll flytja norður," sagði Almarr.

„Svo, ef ég á að vera alveg heiðarlegur, þá heyri ég ekkert frá KA í dágóðan tíma og tók því eiginlega sem svo að þeir væru hættir við þetta. Ég heyrði svo aftur í þeim einhvern tímann um miðjan febrúar og þá var það kannski orðið svolítið seint fyrir okkur.“

„Að sama skapi heyrði ég aldrei í Arnari þjálfara, ég hef því ekki hugmynd um hvort Arnar vildi fá mig eða ekki. Ég talaði við stjórnarmeðlimi og í febrúar var það orðið of seint að skoða þann möguleika, því miður. KA er uppeldisfélagið og æðislegt að fá að taka þátt í því að vera með KA í efstu deild. Það var draumurinn þegar ég var yngri að þetta félag yrði aftur alvöru félag og ég er ánægður með þann stað sem félagið er komið á.“

„En, eins og ég segi, þá var þetta alltaf svolítið púsluspil fyrir mig, pínu erfitt og sérstaklega í sumar var þetta mjög þungt. Bæði það að vera frá fjölskyldu í einhvern tíma og allt covid-ruglið gerði þetta allt erfiðara líka. Þetta hefði verið mikill pakki fyrir KA að koma okkur öllum norður en það náði aldrei svo langt.“


Ertu svekktur að menn hjá KA hafi ekki sagt við þig að það að semja við þig yrði ekki í forgangi?

„Þetta er góð spurning sem hefur verið í hausnum á mér lengi. Ég hefði alveg viljað fá að heyra frá þeim fyrr. Ég held að það hafi verið einhver smá misskilningur með stöðuna milli mín og þeirra. Það voru einhverjir stjórnarmeðlimir sem héldu að ég væri ekki að gefa kost á mér áfram. Slíkt getur gerst en ég ekki lengra í burtu heldur en einu símtali."

„Svo ég taki það fram að ég er ekkert fúll út í KA eða neinn ef að staðan var sú að þeir vildu mig ekki áfram eða, eins og þú segir, ætluðu að einbeita sér að einhverju öðru fyrst. Það er allt í góðu og þannig er bara fótboltinn. Ég vissi að ég var smá pakki og það hefði þurft að redda leikskólaplássi, mögulega vinnu og fleiru fyrir norðan. Ef það hefði ekki gengið þá er það bara þannig og ég væri alls ekki fúll yfir því.“

„En já, mögulega hefði ég viljað fá eitthvað frá þeim meira, hvort þetta væri í skoðun eða bara búið. Ég beið í smá tíma eftir einhverju svari sem kom aldrei og það var pínu fúlt. Ég sef samt alveg á nóttunni, þetta er ekkert það alvarlegt. Ég er alveg áfram KA-maður og mun halda áfram með strákunum í sumar í öllum þeim leikjum sem þeir eru ekki að keppa á móti okkur, það er alveg klárt mál. Ég verð KA-maður alla mína ævi.“


Síðasta sumar var mikið um jafntefli hjá KA. Voruði undir lokin farnir að sjá fram á að bæta jafnteflismet Blika?

„Þetta var aðeins gert grín að þessu í klefanum stundum. Ég sagði það í einhverju viðtali að mig langaði ekkert að bæta þetta met, hefði engan áhuga á að ná því. Það fer ekkert lið inn í leiki til að gera svona mörg jafntefli."

„Stundum, á erfiðum útivöllum, sættir maður sig kannski við að gera jafntefli en þetta var svona fullmikið af hinu góða. Okkur vantaði að skora mörk og á sama tíma fengum við fá mörk á okkur. Ég held að það hafi spilað stórt hlutverk að Elfar [Árni Aðalsteinsson] spilaði ekki neitt með okkur og Nökkvi [Þeyr Þórisson], sem hafði staðið sig mjög vel á undirbúningstímabilinu, meiddist tvisvar. Við náðum þó í þetta mörg stig, það getur skipt máli að ná í eitt stig í leikjum frekar en núll,"
sagði Almarr.

Nánar var rætt við hann og birtist meira úr viðtalinu á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner