banner
   mán 22. mars 2021 22:49
Hafliði Breiðfjörð
Dusseldorf, Þýskalandi
Ísland hóf undirbúning - einn æfði einn, annar í sóttkví og Covid-test
Icelandair
Nýja þjálfarateymið, Eiður Smári, Lars Lagerback og Arnar Þór Viðarsson á æfingu í dag.
Nýja þjálfarateymið, Eiður Smári, Lars Lagerback og Arnar Þór Viðarsson á æfingu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson gefur skipanir.
Arnar Þór Viðarsson gefur skipanir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Raggi Sig er klár í slaginn.
Raggi Sig er klár í slaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið hóf í dag undirbúning sinn fyrir komandi leiki í undankeppni HM 2022. Liðið byrjaði að koma saman á hóteli í Dusseldorf í Þýskalandi í gær og restin kom í dag.

Liðið æfði svo seinnipartinn hér í bænum skammt frá hótelinu en leikur Íslands og Þýskalands fer fram í Duisburg á fimmtudaginn. Allir 23 leikmenn hópsins mættu á æfinguna en Jóhann Berg Guðmundsson tók ekki fullan þátt í æfingunni heldur gekk með Stefáni Stefánssyni sjúkraþjálfara. Jóhann Berg er samt heill heilsu samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í dag og klár í slaginn á fimmtudaginn.



Fyrsta verkefni hópsins í dag var þó að fara í Covid-test á hótelinu. Allir þurfa að gangast undir það, líka þeir sem hafa fengið sjúkdóminn og náð bata.



Vegna smits leikmanns Fylkis þurfti einn starfsmanna KSÍ að fara í sóttkví á hótelinu þar til niðurstaða úr Covid prófinu berst í fyrramálið en hann hafði verið í starfsteymi í leik Fylkis og Stjörnunnar í Lengjubikarnum á laugardaginn.

Þetta er í fyrsta sinn sem landsliðið kemur saman undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar, Eiðs Smára Guðjohnsen og Lars Lagerback.

Þeir halda sig við svipað starfsteymi og forverar þeirra, Halldór Björnsson er þó nýr markmannsþjálfari og Fannar Helgi Rúnarsson er liðsstjóri með Kristni Jóhannssyni. Þá er gamla goðsögnin Birkir Kristinsson kominn í hópinn sem hluti af landsliðsnefnd.



Leikurinn gegn Þjóðverjum sem fyrr segir á fimmtudaginn og Í kjölfarið koma leikir í Armeníu á sunnudaginn og Liechtenstein á miðvikudaginn í næstu viku.

Fótbolti.net fylgir liðinu eftir hvert fótmál í ferðinni og við færum ykkur stöðugt fréttir af liðinu um leið og þær berast.


Athugasemdir
banner
banner
banner