mán 22. mars 2021 23:30
Brynjar Ingi Erluson
„Solskjær verður rekinn ef hann vinnur ekki Evrópudeildina"
Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær
Mynd: Getty Images
Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur hjá talkSPORT, segir að Ole Gunnar Solskjær verði rekinn frá Manchester United ef liðið vinnur ekki Evrópudeildina.

Solskjær hefur gert fína hluti með United í úrvalsdeildinni á þessu tímabili en liðið situr í 2. sæti deildarinnar með 57 stig.

Það er þó orðið nokkuð ljóst að nágrannar þeirra í Manchester City eru á góðri leið með að vinna deildina.

Solskjær hefur ekki unnið bikar með United frá því hann tók við fyrir þremur árum síðan en liðið er úr leik í enska bikarnum eftir 3-1 tap gegn Leicester um helgina.

Eini möguleiki United á að vinna bikar núna er í Evrópudeildinni en liðið er komið í 8-liða úrslit keppninnar og mætir spænska liðinu Granada. Murphy telur að eini möguleiki Solskjær til að halda starfinu sé að vinna Evrópudeildina.

„Þeir geta ekki kennt þreytu um tapið gegn Leicester í bikarnum og að hópurinn sé ekki nógu sterkur. Það að United sé að berjast í Evrópudeildinni er ekki nógu gott og stuðningsmennirnir, félagið og Ole vita það," sagði Murphy.

„Það var þungt högg fyrir United að detta út úr Meistaradeildinni. Liðið mun enda meðal fjögurra efstu en ég meina auðvitað á liðið að vera á þeim stað. Hann er nú í þeirri stöðu þar sem Evrópudeildin er gríðarlega stórt fyrir hann og félagið."

„Ég kann vel við hann og hef nú ekkert sérstaklega gaman af því að sjá þjálfara missa starfið. Liðið er vissulega búið að bæta sig helling en United verður að gera betur. Ef liðið vinnur ekki Evrópudeildina og ná bara að enda meðal fjögurra efstu þá held ég að það verði breytingar,"
sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner