mið 22. apríl 2020 11:51
Elvar Geir Magnússon
Áætlað að spila Meistarakeppni KSÍ 7. júní
Tobias Thomsen og Ágúst Eðvald Hlynsson.
Tobias Thomsen og Ágúst Eðvald Hlynsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar íslenska fótboltanum var frestað vegna kórónaveirufaraldursins tilkynnti KSÍ að Meistarakeppni sambandsins yrði mögulega felld niður þetta árið.

Um er að ræða árlegan leik þar sem Íslandsmeistararnir leika gegn bikarmeisturunum. Hinn íslenski Samfélagsskjöldur.

En samkvæmt þeirri áætlun sem KSÍ hefur nú sett saman er áætlað að leikurinn muni fari fram.

Hann er settur á þann 7. júní eða viku áður en ráðgert er að Íslandsmótið fari af stað.

Íslandsmeistarar KR leika þá gegn bikarmeisturum Víkings en fastlega má reikna með því að sömu helgi verði öll önnur Pepsi Max-deildarlið að taka æfingaleiki.

Nú er í gangi bann við skipulögðum æfingum íþróttafélaga en því verður aflétt með takmörkunum þann 4. maí.

Létt var á upphaflegum takmörkunum eins og greint var frá í gær en meistaraflokkar mega þá æfa í sjö manna hópum.

Áætlað er að þær takmarkanir verði í gildi í 3-4 vikur og svo megi æfa án allra takmarkana, Opnunarleikur Pepsi Max-deildarinnar verður svo ef allt gengur upp í kringum 14. júní.

Líklegt er að deildin verði leikin út október en bikarúrslitaleikurinn er samkvæmt nýju plani þann 7. nóvember.

Athugasemdir
banner