mið 22. apríl 2020 09:22
Elvar Geir Magnússon
Arsenal og Man Utd gætu farið í Meistaradeildina ef tímabilinu er aflýst
Fær United Meistaradeildarsæti á silfurfati?
Fær United Meistaradeildarsæti á silfurfati?
Mynd: Getty Images
Lampard og hans menn yrðu ekki sáttir.
Lampard og hans menn yrðu ekki sáttir.
Mynd: Getty Images
Arsenal og Manchester United gætu fengið sæti í Meistaradeildinni upp í hendurnar ef ekki verður hægt að klára tímabilið í ensku úrvalsdeildinni.

UEFA fundaði með öllum 55 aðildarlöndum sínum í gegnum fjarfund í gær.

The Sun segir að ef tímabilinu verði aflýst þá hafi UEFA sagt aðildarlöndunum að möguleiki sé að nota sérstakan styrkleikalista til að ákveða hvaða lið taka þátt í Evrópukeppnum á næsta tímabili.

Styrkleikalistinn miðar við Evrópuárangur síðustu fimm ára þar sem stig eru gefin fyrir sigra og jafntefli ásamt því að bónusstig fást fyrir að komast í riðlakeppni og útsláttarkeppni.

Ef farið yrði eftir þessum lista þá myndi Arsenal, sem er í níunda sæti og átta stigum frá Chelsea sem er í fjórða sæti, taka eitt af Meistaradeildarsætunum fjórum sem Englendingar fá.

Manchester United er þremur stigum á eftir Chelsea og myndi einnig slást í för með Manchester City og Liverpool í sterkustu deild Evrópu.

Ljóst er að þessi aðferð yrði gríðarlega umdeild en Chelsea og Leicester, sem eru í topp fjórum, þyrftu að sætta sig við að fara í Evrópudeildina með Tottenham. Sheffield United og Wolves kæmust ekki í Evrópukeppni.

Ef tveggja ára bann Manchester City frá Evrópukeppnum stendur myndi Tottenham færast í Meistaradeildina.

Enska úrvalsdeildin er enn staðráðin í því að klára tímabilið um leið og möguleiki sé að spila fótbolta aftur. Kórónaveiran hefur herjað illilega á Bretlandseyjar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner