mið 22. apríl 2020 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tímabilið búið í fimmtu og sjöttu efstu deild Englands
Notts County var að spila fyrir utan efstu fjórar deildirnar í fyrsta sinn í 158 ára sögu félagsins. Liðið var í þriðja sæti fimmtu efstu deildar áður en hún var stöðvuð vegna kórónuveirunnar.
Notts County var að spila fyrir utan efstu fjórar deildirnar í fyrsta sinn í 158 ára sögu félagsins. Liðið var í þriðja sæti fimmtu efstu deildar áður en hún var stöðvuð vegna kórónuveirunnar.
Mynd: Getty Images
Félög í National League deildunum á Englandi hafa kosið um að hætta tímabilinu vegna kórónuveirufaraldursins. Um er að ræða fimmtu og sjöttu efstu deild karla á Englandi.

Það var mikill meirihluti félaga sem kaus með því að hætta tímabilinu, en ekki er búið að taka ákvörðun um hvað gerist næst; hvort að félög fari upp eða niður um deildir.

Vanalega komast tvö félög upp úr fimmtu efstu deild og í D-deildina, League Two. Það falla svo vanalega fjögur lið og komast í þeirra stað fjögur lið upp úr sjöttu efstu deild.

Í mars var tekin sú ákvörðun að aflýsa deildum fyrir neðan National League deildirnar í karlaboltanum og fyrir neðan Championship-deildina í kvennaboltanum. Það var einnig tekin sú ákvörðun að engin félög falli eða komist upp úr þeim deildum. Úrslit voru þurrkuð út, en eins og er þá standa enn úrslit í National League deildunum. Óvissan er mikil.

Michael Tattersall, sem er framkvæmdastjóri National League, sagði: „Á þeim tíma þegar allt landið glímir við hrikaleg áhrif COVID-19, þá færir aflýsing á þeim leikjum sem eru félögunum ákveðna vissu til að takast á við afleiðingar veirunnar."

Enn er vonast til þess að hægt verði að klára ensku úrvalsdeildina, bæði karla- og kvenna á Englandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner