fös 22. júní 2018 23:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ætlaði að fá treyju Messi en var vonsvikinn og hætti við
Mynd: Getty Images
Ante Rebic, leikmaður Króatíu, ætlaði fá treyju Lionel Messi eftir leikinn gegn Argentínu í gær og gefa vini sínum hana. Hann hætti hins vegar við eftir frammistöðu Messi í leiknum.

„Ég ætlaði að fá treyju Messi fyrir vin minn sem er mikill aðdáandi hans," sagði hinn sagði hinn 24 ára Rebic. „Ég var hins vegar ekki hrifinn af Argentínumönnunum og hætti því við að spyrja Messi."

Króatía vann leikinn 3-0; frammistaða Argentínu var skelfileg.

„Ég bjóst við miklu meiru frá þeim. Sérstaklega frá leikmönnunum sem spila í ensku úrvalsdeildinni, sem eru vanir háu tempói og einvígum. Nicolas Otamendi, á fjórðu mínútu komst Mandzukic fram hjá honum og hann, Otamendi, henti sér í jörðina. Ég er vonsvikinn með hegðun þeirra í leiknum."

Búinn að horfa 100 sinnum á markið
Rebic skoraði fyrsta markið í leiknum eftir hörmuleg mistök Willy Caballero, markvarðar Argentínu. Það verður ekki tekið af Rebic að hann kláraði færið mjög vel.

„Þetta var besti leikurinn minn fyrir Króatíu, og ásamt bikarúrslitaleiknum með Frankfurt gegn Bayern, sá besti á mínum ferli," segir Rebic.

„Ég er búinn að horfa á markið mitt 100 sinnum," sagði Rebic og bætti við að Króatar ætli ekki bara að sætta sig við það að komast upp úr riðlakeppninni.

Markið má sjá hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner