fös 22. júní 2018 07:19
Elvar Geir Magnússon
Drullað yfir Messi í argentínskum fjölmiðlum
Messi yfirgefur völlinn í gær.
Messi yfirgefur völlinn í gær.
Mynd: Getty Images
Argentínskir fjölmiðlar hika ekkert í gagnrýni sinni eftir 3-0 tap Argentínu gegn Króatíu á HM í Rússlandi.

„Það er staðfest að argentínska landsliðið er ekki lið. Það er líka staðfest að liðið veit ekki hvernig á að framkalla það besta út úr Messi," skrifaði Sebastian Fest í argentínska dagblaðið La Nación.

„Það sem við vitum ekki er hvað er í gangi í hausnum á leikmanni númer 10 þegar það undarlega verður sorglegt."

Í Argentínu hafa margir talað um Messi sem 'gaurinn frá Barcelona'. Hann hefur í mörg ár reynt að vinna argentínsku þjóðina algjörlega á sitt band en hann er aftur bara 'gaurinn frá Barcelona'.

Messi yfirgaf Argentínu, land sem er fullt af þjóðerniskennd, ungur að aldri og hefur oft verið sakaður um að leggja sig ekki allan fram í landsleikjum.

„Þetta eru ekki tíu leikmenn plús Messi. Þetta eru ellefu leikmenn mínus Messi," heldur Fest áfram.

Jorge Valdano, fyrrum heimsmeistari með Argentínu, fjallaði um leikinn í argentínska sjónvarpinu og talaði um að liðið spilaði eins og Messi væri ekki til.

Sampaoli þjálfari fær einhverja gagnrýni en það er Messi, einn besti leikmaður sögunnar, sem fær stærstan bita. Argentínska þjóðin telur að hann hafi átt að stíga upp og bjarga leiknum.

„Fyrirliðinn var aftur fjarverandi, hann spilaði illa. Hann virkaði tómur og yfirgaf völlinn starandi ofan í jörðina," stendur í Olé.
Athugasemdir
banner
banner
banner