lau 22. júní 2019 21:35
Ívan Guðjón Baldursson
EM U21: Heimamenn gætu verið úr leik
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Þegar Spánn sló Ítalíu úr leik á EM U21 fyrir tveimur árum.
Þegar Spánn sló Ítalíu úr leik á EM U21 fyrir tveimur árum.
Mynd: Getty Images
Áhugaverð staða er komin upp á Evrópumóti U21 landsliða á Ítalíu þar sem sex stig munu líklega ekki nægja Ítölum til að komast upp úr riðli sínum.

Á Evrópumótinu eru þrír riðlar með fjórum liðum í hverjum riðli. Aðeins eitt lið fer upp úr hverjum riðli ásamt stigahæsta liðinu í 2. sæti.

Fyrr í kvöld voru níu mörk skoruð í tveimur síðustu leikjum A-riðils. Þar höfðu heimamenn betur gegn Belgíu á meðan Spánn rúllaði yfir Pólland.

Moise Kean mætti seint á æfingu í dag og fékk því ekki að koma við sögu gegn Belgíu. Sama á við um Nicolo Zaniolo, sem var þó í banni og hefði hvort sem er ekki mátt vera með.

Þrátt fyrir þetta voru yfirburðir Ítalíu algjörir og skoraði Nicoló Barella fyrsta mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks. Patrick Cutrone tvöfaldaði forystuna eftir leikhlé en Belgar náðu að minnka muninn gegn gangi leiksins á lokakaflanum.

Yari Verschaeren skoraði þá á 79. mínútu, tíu mínútum áður en Federico Chiesa gerði út af við leikinn. Ítalir enda með sex stig, í öðru sæti riðilsins á markatölu.

Belgía 1 - 3 Ítalía
0-1 Nicolo Barella ('44)
0-2 Patrick Cutrone ('53)
1-2 Yari Verschaeren ('79)
1-3 Federico Chiesa ('89)

Spánverjar gjörsamlega rúlluðu yfir Pólverja og unnu 5-0. Leikmenn skiptu mörkunum bróðurlega á milli sín en Pablo Fornals, sem kom til West Ham á metfé fyrr í júní, gerði fyrsta markið.

Mikel Oyarzabal, Fabian Ruiz, Dani Ceballos og Borja Mayoral skoruðu einnig. Engin smá nöfn þar á ferð, í U21 liði.

Spánverjar unnu riðilinn á markatölu, en þeir ljúka keppni með 6 stig eftir að hafa tapað gegn Ítalíu í fyrstu umferð.

Pólverjar enda einnig með 6 stig. Þeir unnu óverðskuldaðan sigur gegn Ítölum, sem tókst með engu móti að nýta færin sín í þeim leik.

Spánn 5 - 0 Pólland
1-0 Pablo Fornals ('17)
2-0 Mikel Oyarzabal ('35)
3-0 Fabian Ruiz ('39)
4-0 Dani Ceballos ('71)
5-0 Borja Mayoral ('90)

Í B-riðli geta Austurríki og Danmörk unnið sig upp í sex stig og þá þarf markatalan aðeins að vera betri heldur en hjá Ítölum. Danir eru því úr leik nema þeir vinni þriggja marka sigur á botnliði Serba í lokaumferðinni.

Sama á við um Austurríki, nema að þeirra leikur er talsvert erfiðari, eða gegn Þýskalandi.

C-riðill hefur mestu líkurnar á að senda tvö lið í undanúrslit, þar eru Frakkar og Rúmenar saman á toppnum með sex stig fyrir lokaumferðina.

Liðin mætast í úrslitaleik um toppsætið, en jafntefli kemur báðum liðunum áfram. Þetta eru liðin sem slógu stjörnum prýtt lið Englendinga úr leik. Þeir eru stigalausir eftir tvær umferðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner