Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. júní 2020 20:59
Brynjar Ingi Erluson
England: Man City valtaði yfir Burnley á Etihad
Phil Foden skoraði tvö og var maður leiksins
Phil Foden skoraði tvö og var maður leiksins
Mynd: Getty Images
Manchester City 5 - 0 Burnley
1-0 Phil Foden ('22 )
2-0 Riyad Mahrez ('43 )
3-0 Riyad Mahrez ('45 , víti)
4-0 David Silva ('51 )
5-0 Phil Foden ('63 )

Englandsmeistarar Manchester City rúlluðu nokkuð þægilega yfir Burnley á Etihad-leikvanginum í kvöld er liðin mættust í 30. umferð deildarinnar.

Phil Foden fékk tækifæri í byrjunarliði City í kvöld en hann skoraði í síðustu umferð í 3-0 sigrinum gegn Arsenal. Hann kom City yfir í kvöld með laglegu marki fyrir utan teig á 22. mínútu.

City var töluvert meira með boltann og gæðamunurinn var augljós og kom því fáum á óvart er Riyad Mahrez tvöfaldaði forystuna á 43. mínútu eftir laglega rispu á hægri vængnum.

Hann tók nokkrar góðar gabbhreyfingar áður en hann skaut boltanum í vinstra hornið. City fékk vítaspyrnu tveimur mínútum síðar eftir að Ben Mee braut á Sergio Aguero innan teigs. Mahrez steig á punktinn og skoraði.

Mahrez er nú með 11 mörk og 15 stoðsendingar í 30 leikjum í öllum keppnum.

Aguero þurfti að fara af velli eftir að brotið var á honum og inn kom Gabriel Jesus.

Í síðari hálfleik hélt City uppteknum hætti og bætti við tveimur mörkum til viðbótar. Spænski reynsluboltinn David Silva gerði fjórða markið eftir sendingu frá Bernardo Silva.

Foden gerði annað mark sitt í leiknum tólf mínútum síðar. City fór hratt í sókn og lagði Kevin de Bruyne boltann inn í teig á Bernardo, sem kom honum strax á Gabriel Jesus. Brasilíski framherjinn var í ákjósanlegu færi en ákvað þó að leggja hann til hliðar á Foden sem skoraði örugglega.

Lokatölur 5-0 og Man City áfram í 2. sæti deildarinnar með 63 stig, nú tuttugu stigum á eftir Liverpool. Þetta þýðir að Liverpool á ekki möguleika á að vinna deildina á morgun og er því útlit fyrir það að liðið gæti tryggt titilinn gegn City á Etihad þann 2. júlí.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner