mán 22. júní 2020 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rooney ráðlagði Man Utd að kaupa Idrissa Gueye
Gylfi Þór Sigurðsson og Idrissa Gueye.
Gylfi Þór Sigurðsson og Idrissa Gueye.
Mynd: Getty Images
Wayne Rooney, fyrirliði Derby County, hefur greint frá því að hann ráðlagði Manchester United að kaupa Idrissa Gueye, mánuði eftir að Rooney gekk aftur í raðir Everton árið 2017.

Rooney ólst upp hjá Everton, en hann er goðsögn hjá Manchester United eftir að hafa leikið með félaginu frá 2004 til 2017. Rooney fór aftur í Everton 2017 og spilaði með liðinu eina leiktíð. Þar hreifst hann af miðjumanninum Gueye.

Í pistli sínum fyrir The Times skrifar Rooney: „Það tala allir um tæklingar hans og orku, en það sem kom mér á óvart voru gæði hans á boltanum - hann reyndi alltaf að spila honum fram á við og í fætur þínar."

„Eftir að hafa spilað í mánuð með honum, þá talaði ég við fólk frá Manchester United um að hann væri nægilega góður fyrir liðið. Ég var ekki í sjokki þegar Paris Saint-Germain keypti hann."

Gueye, sem er þrítugur, yfirgaf Everton síðasta sumar og gekk í raðir Paris Saint-Germain í Frakklandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner