Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 22. júní 2021 23:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Finnur fyrir trausti og léttari stemningu - „Hafði bara nanósekúndu til að ákveða mig"
Einar Karl er 27 ára gamall miðjumaður
Einar Karl er 27 ára gamall miðjumaður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann er uppalinn í FH en gekk í raðir Vals árið 2014.
Hann er uppalinn í FH en gekk í raðir Vals árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tæklingin á Sóloni
Tæklingin á Sóloni
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Beint rautt
Beint rautt
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Gegn FH
Gegn FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markinu gegn FH fagnað
Markinu gegn FH fagnað
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan hefur verið á góðu skriði að undanförnu. Liðið gerði jafntefli gegn Fylki í síðasta leik fyrir landsleikjafrí og hefur síðan unnið tvo af síðustu þremur. Sigrarnir voru gegn Val og svo vannst sigur gegn HK í síðasta leik á sunnudag.

Fyrir leikinn gegn Fylki var liðið með tvö stig eftir sex leiki og sat í botnsæti deildarinnar.

Einar Karl Ingvarsson gekk í raðir Stjörnunnar fyrir mót. Einar er uppalinn hjá FH en hefur einnig leikið með Fjölni, Grindavík og svo Val á sínum ferli. Hann skoraði einmitt í leik gegn FH á dögunum og vann sigur gegn Val.

Fréttaritari heyrði í Einari Karli í kvöld og spurði hann út í tímabilið til þessa.

Léttara yfir þessu núna - hvað gerðu Stjörnumenn?
Það virkaði einhvern veginn léttari andi í kringum ykkur í kringum leikinn gegn Fylki í lok maí og svo eftir hann. Breyttuð þið einhverju í ykkar rútínu eða undirbúningi til að reyna lyfta upp einhverri stemningu?

„Við breyttum ekki neinu þannig lagað. Á þessum tíma vorum við ekki búnir að ná í mörg stig og vorum orðnir hungraðir í sigur," sagði Einar Karl.

„Okkur leið öllum mjög vel í þessum leik gegn Fylki, það var mikið sjálfstraust og við skoruðum snemma. Mér leið eins og andinn væri mjög góður í liðinu í þeim leik en svo fengum við rautt spjald, Emil Atla fékk rautt sem var frekar óheppilegt. Það spjald var einhvern veginn eins og sagan var búin að vera í sumar."

„Mér finnst við heilt yfir ekki búnir að spila illa í sumar en það hafði gengið illa að klára færin okkar og vinna leiki. Það hefur gengið betur núna í síðustu leikjum og kominn annar bragur á liðið sem er mjög gott."


Enginn peppfundur eða neitt sérstakt sem útskýrir breytt gengi?

„Það var landsleikjafrí eftir Fylkisleikinn og við tókum eitthvað smá félagslegt þá, borðuðum allir í hópnum saman eftir æfingu og það hefur kannski hjálpað. Það var gott líka að aðeins kúpla sig frá deildinni í landsleikjafríinu, það voru tvær vikur þar sem voru engir leikir og við vorum ekkert að hugsa til baka. Við horfðum bara fram veginn, æfðum vel í landsleikjafríinu og vorum harðákveðnir í að koma inn í fyrsta leik eftir landsleikjafrí."

„Mér finnst við búnir að spila mjög vel eftir hlé og sækja fullt af stigum eftir það. Það er léttara yfir þessu núna."


Gengið á ýmsu
Finnst þér þú persónulega vera kominn alveg inn í hópinn og í takt við það sem liðið vill gera?

„Auðvitað tekur smá tíma að fara inn í nýtt lið og reyna aðlagast því. Ég var í liði sem var að spila öðruvísi bolta og það er alltaf smá tilbreyting. Ég fékk fullt af leikjum í vetur til að aðlagast liðinu og mér finnst ég hafa gert það ágætlega þó það sé kannski erfitt fyrir mig persónulega að meta það."

„Félagið og allir í kringum það hafa tekið mjög vel á móti mér. Hef bara jákvæða hluti að segja um það. Það hefur gengið á ýmsu eftir að ég kom, tveir þjálfarar farnir en það fylgir þessu. Maður dílar bara við það og heldur áfram að gera sitt, æfa vel og leggja sig fram."


Rúnar Páll Sigmundsson hætti eftir fyrsta leik í mótinu og Ólafur Jóhannesson hætti rétt eftir að Einar Karl samdi við Stjörnuna í vetur.

Nielsen ákvað að skemma fyrir Einari Karli
Markið gegn FH fyrir tæpri viku síðan var fyrsta mark Einars fyrir Stjörnuna í sumar. Einar skoraði með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig en Gunnar Nielsen, markvörður FH, átti stórkostlega vörslu þegar Einar smellhitti boltann seinna í leiknum.

Gott að vera kominn á blað og gaman að skora á móti FH?

„Já, það var líka mjög gott að skora strax eftir að þeir skoruðu. Að jafna þetta strax og þetta var bara mjög skemmtilegur leikur sem hefði getað dottið báðu megin. Maður hefði viljað stela þessu en Nielsen henti sér í einhverja draumavörslu og ákvað að skemma þetta fyrir manni."

Finnst þér þú hafa skorað úr næstbesta skotinu þínu í leiknum?

„Það gæti bara vel verið," sagði Einar Karl og hló. „Ég vil meina að ég hafi verið klókur í markinu, það þarf ekki alltaf að vera fast."

Hafði bara nanósekúndu til að ákveða sig
Einar Karl fékk að líta rauða spjaldið þegar hann tók Sólon Breka Leifsson niður undir lok leiksins gegn Leikni í fyrstu umferð mótsins. Fannst honum hann þurfa að taka það á sig að taka Sólon niður og myndi hann gera þetta aftur?

„Ég kom mér sjálfur í þetta, ég mat stöðuna aðeins vitlaust. Ég hélt ég hefði aðeins meira tíma en ég hafði. Mér fannst fyrsta snertingin ekki léleg, ætlaði að færa boltann áfram og þá mætti Sólon, boltinn fór í hann og hann framhjá mér með boltann. Ég hafði bara nanósekúndu til að ákveða hvað ég myndi gera."

„Mér fannst Halli standa framarlega og mér fannst ég vera búinn að missa hann á þessu augnabliki. Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég verð að taka hann niður. Ég var aftastur og þurfti að reyna bjarga sjálfum mér úr þessu. Svo horfir maður á þetta aftur og þá hugsar maður að mögulega hefði maður getað hlaupið með honum en hann hefði alveg getað stungið mig af."

„Þetta var bara eitthvað sem ég ákvað að gera og ég held ég myndi gera þetta aftur ef staðan væri 0-0 eins og hún var, annars væru miklar líkur á að við fengjum á okkur mark."


Gott að finna fyrir trausti
Stöðurnar á miðjunni, þú og Eyjólfur Héðinsson virkið með nokkuð öruggt sæti í liðinu, upplifir þú þetta líka og er þetta þægileg tilfinning?

„Það er búið að vera mikið af meiðslum í liðinu og breiddin þess vegna kannski ekki mikil. Halldór Orri og Óli Kalli hafa glímt við meiðsli og svo Sölvamálið, Sölvi var líka að spila á miðjunni."

„Það hefur ekkert verið endalaust af möguleikum til að breyta til ef þjálfaranum finnst þetta ekki vera að virka. Auðvitað er það góð tilfinning að vita maður er með sæti í liðinu ef maður er að standa sig. Það getur svo breyst fljótt ef maður er ekki að standa sig. Maður hefur lent í því áður að vera í þeirri stöðu að vera hræddur um að eiga einn lélegan leik og þá sé maður dottinn úr liðinu."

„Maður finnur fyrir trausti og það er mjög gott. Mér finnst það persónulega vera þannig að maður þorir að gera meira, er ekki eins passívur, ekki jafn hræddur við að gera mistök og tilbúinn að prófa eitthvað nýtt eða gera eitthvað annað til að bæta sig,"
sagði Einar Karl.

Nánar var rætt við hann og birtast fleiri hlutar úr viðtalinu á morgun.
Athugasemdir
banner