fös 22. júlí 2022 21:12
Brynjar Ingi Erluson
EM kvenna: Svíar í undanúrslit - Ótrúlegt að sigurinn hafi ekki orðið stærri
Svíar gátu leyft sér að fagna
Svíar gátu leyft sér að fagna
Mynd: EPA
Svíþjóð 1 - 0 Belgía
1-0 Linda Sembrant ('90 )

Svíþjóð er komið í undanúrslit Evrópumótsins eftir 1-0 sigur á Belgíu á Leigh Sports-Village leikvanginum í Manchester í kvöld. Það er í raun með ólíkindum að fleiri mörk voru ekki skoruð í þessum leik en Belgía náði að standa af sér stórskotahríð Svía fram að uppbótartíma.

Svíar komu vissulega boltanum í netið á 24. mínútu í gegnum Stinu Blackstenius en VAR skoðaði það atvik betur og komst að þeirri niðurstöðu að hún var rétt fyrir innan þegar sendingin kom og markið því dæmt af.

Nicky Evrard, sem hefur verið frábær á þessu móti í marki Belga, var mögnuð í kvöld og varði vel á köflum, en hún gat ekki komið í veg fyrir mark í 32. tilraun Svía.

Svíar fengu hornspyrnu sem Kosovare Asllani tók. Evrard kýldi boltann út á Nathalie Bjorn, sem lét vaða á markið. Belgar björguðu á línu en Linda Sembrant var rétt kona á réttum stað og kom boltanum yfir línuna.

Þolinmæði þrautir vinnur allar og það var saga Svía í kvöld. Þetta reyndist sigurmarkið og Svíar fara í undanúrslit og mæta þar gestgjöfunum frá Englandi á þriðjudag.
Athugasemdir
banner
banner