Liverpool mun endurheimta lykilmenn fyrir leik liðsins gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á annan í jólum er þeir Alisson, Trent Alexander-Arnold og Virgil van DIjk snúa aftur í hópinn.
Þessir þrír leikmenn voru ekki með liðinu í 3-2 tapinu gegn Manchester City í enska deildabikarnum í kvöld.
Alexander-Arnold, sem kom nýlega aftur til móts við liðið eftir að hafa verið með enska landsliðinu á HM, fékk flensu og gat því ekki verið með í kvöld.
Það var þá þegar vitað að Van Dijk myndi ekki spila leikinn í kvöld en hann, Alexander-Arnold og Alisson snúa allir aftur gegn Aston Villa á mánudag.
James Milner meiddist í aftan í læri gegn Man City í kvöld en Klopp vonar að það sé ekkert alvarlegt.
„Milner var sannfærður um að þetta væri eitthvað smávægilegt en við vildum vera vissir að þetta yrði ekki verra. Ég er ekki viss hvort þetta hafi verið aftan í læri eða ekki. Ég er ekki viss.“
„Trent var veikur. Oxlade-Chamberlain var líka veikur en var búinn að jafna sig í gær. Allir hinir ættu að vera klárir fyrir utan þá sem eru að glíma við langtímameiðsli. Konate mun svo koma til móts við hópinn í næstu viku,“ sagði Klopp eftir leikinn.
Athugasemdir