„Á hverju ári á þessum tímapunkti þá eru leikmenn að koma heim í frí. Þeir vilja halda sér við efnið," segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í samtali við Fótbolta.net.
Nokkrir atvinnumenn hafa verið að æfa með Víkingum upp á síðkastið. Má þar nefna Andra Lucas Guðjohnsen, Axel Óskar Andrésson og Valgeir Valgeirsson.
Þá hefur Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður Venezia á Ítalíu, einnig verið að æfa með félaginu. Hann hefur ekki verið að spila mikið með Venezia. Er möguleiki á því að hann sé að fara í Víking?
„Við erum bara búnir að ræða óformlega saman, bara að spyrja hvernig gengur og svona," segir Arnar.
„Maður reynir að gera það við flesta af þessum strákum sem eru lítið að spila og stráka sem geta styrkt okkar hóp. Ég á von á því að hann verði áfram úti. Ég held að hann vilji vera úti, eðlilega. Sýna sig og sanna."
Birgir Steinn Styrmisson, 18 ára gamall leikmaður Spezia á Ítalíu, er líka að æfa með Víkingum en hann var áður fyrr á mála hjá KR hér heima.
„Hann mætti á eina æfingu fyrir jól og verður eitthvað hjá okkur á milli jóla og nýárs. Ég hef ekki heyrt að hann sé að koma heim," sagði Arnar um Birgir Stein sem er efnilegur leikmaður.
Athugasemdir