Brentford er að kanna möguleika sína ef ske kynni að Ivan Toney fái langt bann.
Hinn 26 ára gamli Toney er einn heitasti framherjinn í ensku úrvalsdeildinni í dag en hann var verðlaunaður með sæti í enska landsliðinu í október. Hann fór hins vegar ekki með liðinu á HM í Katar.
Stuttu fyrir heimsmeistaramótið kærði enska knattspyrnusambandið Toney þar sem hann er grunaður um að hafa brotið veðmálareglur sambandsins 232 sinnum yfir fjögurra ára tímabil, frá 2017 til 2021.
Málið er enn í ferli en fyrr í vikunni sendi sambandið frá sér yfirlýsingu og var þar greint frá því að 30 brotum hafi verið bætt við kæruna en þau brot áttu sér stað frá 2017 til 2019.
Þetta lítur ekki vel út fyrir enska framherjann sem gæti átt yfir höfði sér nokkurra ára bann. Brentford er byrjað að undirbúa sig fyrir það og er að skoða möguleika í framherjamálum fyrir janúargluggann. Það verður þó erfitt að finna leikmann í stað Toney.
Toney mun halda áfram að spila fyrir Brentford þangað til honum verður sagt að gera annað.
Athugasemdir