
Eftir að Davíð Smári Lamude fór frá Kórdrengjum til að taka við Vestra, þá hafa vaknað upp margar spurningar.
Það er margt óljóst með Kórdrengi fyrir næstu leiktíð; ekki er vitað hver þjálfar liðið, ekki er vitað hverjir munu spila með liðinu þar sem ekki eru margir eftir á samningi og ekki er vitað hvar liðið mun spila. Kórdrengir, sem eru ungt félag, leigðu völl hjá Fram í Safamýri síðasta sumar en núna hafa Víkingar tekið yfir það svæði.
Núna þegar að því virðist vera helsti drifkrafturinn - í Davíð Smára - sé farinn. Hvað gerist þá?
Samstarf með öðru félagi?
Logi Már Hermannsson, formaður Kórdrengja, staðfesti í samtali við 433.is í síðasta mánuði að liðið ætli sér að mæta til leiks en það eru að koma jól og það er margt óljóst.
Samkvæmt sögum sem Fótbolti.net hefur heyrt þá hefur verið rætt við önnur félög um að fara í einhvers konar samstarf með Kórdrengjum. Eitt af þeim félögum sem nefnt hefur verið er Breiðablik. Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, var spurður út í þessar sögur.
„Ég veit nú ýmislegt. Ef þetta væri í kortunum þá myndi ég vita af því," sagði Eysteinn við Fótbolta.net er hann var spurður að því hvort Blikar væru að fara í samstarf með Kórdrengjum, væru jafnvel að fara að taka yfir þeirra starf að einhverju leyti.
„Það kom einhvern tímann inn á borð hvort þetta væri möguleiki og við skoðuðum það en þetta er ekki eitthvað sem við erum að stefna að," sagði Eysteinn við Fótbolta.net.
Blikar eru nú þegar með venslafélag í 3. deild, Augnablik.
Athugasemdir